Annað tap spút­nikliðsins kom í Manchester

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sá norski skoraði tvö.
Sá norski skoraði tvö. EPA/ADAM VAUGHAN

Manchester City lagði Bournemouth 3-1 í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Annað árið í röð ætlar Bournemouth að vera spútniklið mótsins en eftir tíu umferðir hefur liðið tapað tveimur leikjum, gegn Englandsmeisturum Liverpool og nú Man City.

Gestirnir héldu að þeir hefðu komist yfir áður en ein mínúta var liðin af leik dagsins en flaggið fór á loft og markið stóð ekki vegna rangstöðu. Það nýttu heimamenn sér en norska markamaskínan Erling Haaland kom þeim yfir eftir undirbúning Rayan Cherki á 17. mínútu.

Gestirnir hafa hins vegar óbilandi trú á eigin getu og jöfnuðu metin þegar Tyler Adams skilaði knettinum í netið eftir allskyns bras í vítateig heimaliðsins. Markvörður heimaliðsins, Gianluigi Donnarumma, taldi að á sér hefði verið brotið í aðdraganda marksins og fékk gult spjald fyrir mótmæli.

Heimaliðið lét þetta ekki slá sig út af laginu og á 33. mínútu hafði Haaland komið þeim yfir á ný, aftur eftir undirbúning Cherki. Var þetta 17. mark Norðmannsins í aðeins 13 leikjum til þessa á leiktíðinni.

Þegar klukkustund var liðin skoraði Nico O‘Reilly þriðja mark heimamanna og reyndist það síðasta mark leiksins, lokatölur 3-1.

Man City er nú í 2. sæti með 19 stig, sex stigum á eftir toppliði Arsenal. Á sama tíma er Bournemouth með 18 stig í 4. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira