Íslenski boltinn

Ólafur Karl lánaður til Noregs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Karl í leiknum gegn FH á mánudaginn.
Ólafur Karl í leiknum gegn FH á mánudaginn. vísir/anton
Stjarnan hefur lánað Ólaf Karl Finsen til norska B-deildarliðsins Sandnes Ulf út tímabilið. Sandnes á svo forkaupsrétt á Ólafi þegar lánssamningurinn rennur út.

Ólafur var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Ólafur skoraði þá 11 mörk í 21 deildarleik, þ.á.m. bæði mörk Stjörnunnar í 2-1 sigrinum á FH í lokaumferðinni. Hann var einnig drjúgur í Evrópuleikjum Garðbæinga.

Það hefur ekki gengið jafnvel í ár, hvorki hjá Ólafi né Stjörnunni sem er í 7. sæti Pepsi-deildarinnar með aðeins 20 stig eftir 16 leiki. Ólafur gerði þrjú mörk fyrir Stjörnuna í 16 deildarleikjum í sumar.

Hjá Sandnes hittir Ólafur fyrir félaga sinn úr Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar í fyrra, markvörðinn Ingvar Jónsson, sem er á láni hjá félaginu frá Start.

Sandnes er í 2. sæti norsku B-deildarinnar með 35 stig og á því góða möguleika á að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni eftir eins árs fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×