Íslenski boltinn

Schreurs spilar ekki meira með Leikni | Braut agareglur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schreurs tókst ekki að skora í sjö deildarleikjum fyrir Leikni.
Schreurs tókst ekki að skora í sjö deildarleikjum fyrir Leikni. vísir/ernir
Skammri dvöl hollenska framherjans Danny Schreurs hjá Leikni Reykjavík er lokið en hann hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

Þetta staðfesti Davíð Snorri Jónasson, annar þjálfara Leiknis, í samtali við Vísi nú rétt í þessu. Að sögn Davíðs gerðist Schreurs sekur um agabrot.

„Við þjálfararnir tókum bara ákvörðun um að hann myndi ekki spila meira með Leikni og við kláruðum það bara með leikmanninum og svo leysir stjórnin restina,“ sagði Davíð en Schreurs mistókst að skora í þeim sjö deildarleikjum sem hann lék með Leikni en hann kom til félagsins í júlí-glugganum.

„Danny stóð sig að mörgu leyti vel en auðvitað vill maður að framherjar skori en þessi ákvörðun tengist því ekkert hvernig hann spilaði,“ bætti Davíð við.

Leiknir er í erfiðri stöðu þegar tvær umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni en Breiðholtsliðið er fjórum stigum frá öruggu sæti. Leiknir tekur á móti KR á laugardaginn í næstu umferð og sækir svo Keflavík heim viku seinna í lokaumferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×