Bílar

Opel í uppsveiflu

Finnur Thorlacius skrifar
Opel Astra er að slá í gegn í Evrópu.
Opel Astra er að slá í gegn í Evrópu.
Árið byrjaði með látum hjá Opel sem sló glæsilegt sölumet í janúar. Nú liggur fyrir að uppsveiflan hefur haldið fullum dampi í febrúarmánuði og mælist heildarsöluaukningin 25% fyrstu tvo mánuði ársins 2016. Markaðshlutdeild Opel á Þýskalandsmarkaði hefur vaxið að sama skapi og stendur nú í 7,7%. 

Það er besti árangur síðari ára hjá þýska fyrirtækinu og vísbending um það ágæta framboð af bílum sem Opel býður uppá nú. Þó er sérstaklega einn bíll sem leiðir öfluga markaðssókn Opel, þ.e. Opel Astra. Þar fer einn umtalaðasti smellur síðari ára frá Opel og seldist hann í 2.300 eintökum í febrúarmánuði einum.

Það er 84% söluaukning á milli ára miðað við eldri gerð Opel Astra. Í heild hafa borist 130.000 pantanir í Opel Astra, hinn nýja, á Evrópumarkaði. Þá vekur það líka athygli að á sinni stuttu ævi hefur Astra sópað til sín viðurkenningum í ótal löndum m.a. Gullna stýrið (Golden Steering Wheel) í Þýskalandi og Bíll ársins í Danmörku og Skotland, svo eitthvað sé nefnt.

Nýjasti vegsaukinn er svo útnefning á Astra sem Bíll ársins í Evrópu 2016 (Best car of the Year 2016), sem eru ein virtustu verðlaun bílabransans. Langbaksútgáfan af Opel Astra var frumsýnd á bílasýningunni í Genf nú á dögunum. Hjá Bílabúð Benna fengust þær upplýsingar að báðar útfærslurnar yrðu frumsýndar á Íslandi í apríl nk.






×