FH heldur áfram að safna liði fyrir átökin í Pepsi-deild karla á næstu leiktíð en risinn úr Hafnarfirði samdi við tvo leikmenn á blaðamannafundi í Kaplakrika í dag.
Þetta eru framherjinn Geoffrey Castillion, sem kemur til FH frá Víkingi, og vængmaðurinn Kristinn Steindórsson sem kemur frá sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall. Báðir leikmenn skrifuðu undir tveggja ára samning við Fimleikafélagið.
Castillion gat ekki verið á fundi FH-inga í dag þar sem hann er ekki á landinu en hann kemur til landsins 6. janúar.
Vísir greindi frá því í byrjun mánaðarins að Castillion væri á leið til FH og sagði svo frá því í gær að Kristinn væri einnig búinn að semja við FH-inga sem ætla sér greinilega stóra hluti á næstu leiktíð.
Hollendingurinn Castillion kom til Íslands í byrjun árs og samdi við Víking en hann skoraði ellefu mörk í 16 leikjum fyrir Fossvogsliðið á síðustu leiktíð og sýndi að hann er einn besti leikmaður deildarinnar. Koma hans ætti að styrkja sóknarleik FH gríðarlega.
Kristinn Steindórsson er uppalinn hjá Breiðabliki og skoraði 35 mörk í 94 deildar- og bikarleikjum frá 2007-2011 áður en hann fór í atvinnumennsku til Svíþjóðar og Bandaríkjanna. Hann á þrjá landsleiki að baki en í þeim skoraði hann tvö mörk.
Hann varð Íslands- og bikarmeistari með Breiðabliki undir stjórn Ólafs Kristjánssonar sem tók einmitt við FH-liðinu fyrr í vetur. Hann er annar uppaldi Blikinn úr meistaraliðinu sem Ólafur fær til sín en áður var mættur í Krikann Guðmundur Kristjánsson.
Auk þeirra tveggja er FH svo einnig búið að semja við Hjört Loga Valgarðsson þannig FH er nú búið að fá til sína fjóra stóra bita.
