Nikolaj Hansen skoraði fyrsta mark deildarinnar á 19. mínútu og kom Víkingum í 0-1 sem voru hálfleikstölur.
Emil Lyng jafnaði fyrir Val á 55. mínútu með sínu fyrsta deildarmarki fyrir félagið.
Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka skoraði varamaðurinn Logi Tómasson stórkostlegt mark sem verður lengi í minnum haft. Hann tók á mikinn sprett, klobbaði báða miðverði Vals og þrumaði boltanum svo upp í þaknetið. Fyrsta mark stráksins í efstu deild og það var af dýrustu gerð.
Birkir Már Sævarsson jafnaði fyrir Val á 81. mínútu þegar hann fylgdi eftir skalla Kristins Inga Halldórssonar sem Þórður Ingason varði.
Gestirnir úr Víkinni komust yfir í þriðja sinn á 87. mínútu þegar Sölvi Geir Ottesen skallaði hornspyrnu Loga í netið.
En Gary Martin átti síðasta orðið þegar hann jafnaði í 3-3 þegar mínúta var til leiksloka. Englendingurinn skoraði þarna gegn sínu gamla félagi. Valur er fjórða félagið sem hann skorar fyrir í efstu deild á Íslandi.

Víkingar léku lengst af mjög vel í leiknum og stigið var það minnsta sem þeir áttu skilið.
Gestirnir voru hugrakkir, þorðu að pressa Valsmenn og, það sem var kannski mikilvægara, að spila sig í gegnum pressu heimamanna. Það var áhætta sem borgaði sig og Víkingar sýndu að það heilmikið í þá spunnið.
Valsmenn voru afleitir í fyrri hálfleik en skárri eftir hlé og geta verið bærilega sáttir með stigið í ljósi þess að þeir lentu þrisvar undir.
Hverjir stóðu upp úr?
Logi Tómasson gleymir þessum leik ekki í bráð. Hann kom inn á í stöðu vinstri bakvarðar þegar Dofri Snorrason fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og átti skínandi leik. Þessi 18 ára gutti var öruggur með boltann, skoraði magnað mark og gaf auk þess stoðsendingu.
Sölvi Geir gekk á undan með góðu fordæmi og lék vel þrátt fyrir að vera á annarri löppinni. Þá átti Viktor Örlygur Andrason mjög góðan leik á Víkingsmiðjunni.
Hvað gekk illa?
Valsmenn voru ekki upp á sitt besta í kvöld, þá sérstaklega í fyrri hálfleik sem var slakur af þeirra hálfu.
Vörn meistaranna leit illa út á köflum og Eiður Aron Sigurbjörnsson lék sennilega sinn versta leik í Valstreyjunni í kvöld.
Hvað gerist næst?
Bæði lið eiga leiki í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Verkalýðsdaginn, þótt misstórir séu. Valur mætir FH á meðan Víkingur sækir 4. deildarlið KÁ heim.

„Ég þakka bara fyrir þetta stig. Víkingarnir voru frábærir á móti okkur og ég er ánægður með stigið,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir jafnteflið í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla í kvöld.
Valsmenn áttu ekki sinn besta dag og lentu í miklum vandræðum með spræka Víkinga.
„Við náðum aldrei að kveikja á okkur. Við vorum í erfiðleikum,“ sagði Ólafur. En komu Víkingarnir honum á óvart?
„Nei, þeir gerðu það ekki. Ég átti allt eins von á ví að þeir myndu pressa okkur hátt og þora að halda boltanum. Þeir eru með fínt lið,“ sagði Ólafur.
Hann kvaðst ánægður með að hans menn jöfnuðu þrisvar sinnum í leiknum.
„Ég er ánægður með það og við fengum stig. Það er fínt og sterkt að koma til baka,“ sagði Ólafur að lokum.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, kvaðst stoltur af sínu liði eftir jafnteflið gegn Íslandsmeisturum Vals. Hann var þó svekktur að hafa í þrígang misst niður forystu.
„Ég er bæði stoltur og svekktur. Við komumst þrisvar sinnum yfir. Þetta var hörkuleikur og frábær auglýsing fyrir deildina,“ sagði Arnar við Vísi í leikslok.
„Við mættum þeim og pressuðum þá. Á köflum þurftum við að verjast en við vorum mjög ákveðnir og lögðum leikinn vel upp. Stolt og svekkelsi. Það eru orðin sem koma fyrst upp i hugann.“
Víkingar voru óhræddir við að spila út úr vörninni og í gegnum pressu Valsmanna.
„Við höfum æft í allan vetur og æft þetta vel. Strákarnir eru góðir í þessu. Við erum með unga og skemmtilega menn á miðjunni og frammi sem eiga framtíðina fyrir sér,“ sagði Arnar.
Logi Tómasson skoraði sannkallað draumamark á 75. mínútu.
„Þetta var geðveikt mark. Hann var flottur í vetur en fótbrotnaði svo fyrir nokkrum vikum. En hann er að skríða saman og minnti heldur betur á sig. Hann á framtíðina fyrir sér,“ sagði Arnar.
Hann segir að frammistaða Víkings í kvöld gefi góð fyrirheit fyrir framhaldið.
„Það eru ekki mörg lið sem koma hingað og taka stig. Valsliðið er frábært en við sýndum hugrekki. Svona á fótbolti að vera,“ sagði Arnar að endingu.