Dauðadjúpar sprungur 13. júní 2004 00:01 Einstakir atburðir í lífi þjóðar eiga það til að afhjúpa bresti, sem ýmsum voru áður huldir. Byrjum í Bandaríkjunum. Kjör George Bush til forsetaembættisins árið 2000, ef kjör skyldi kalla, svipti hulunni af þverklofningi bandarísku þjóðarinnar í tvær nokkurn veginn jafnvígar fylkingar. Athuganir stjórnmálafræðinga sýna, að flokkarnir tveir þar vestra, demókratar og repúblíkanar, hafa fjarlægzt svo hvor annan, að þeir þingmenn demókrata, sem standa lengst til hægri, eru nú vinstra megin við þá þingmenn repúblíkana, sem standa lengst til vinstri. Þessi ályktun er reist á skýrslum um atkvæði þingmanna við afgreiðslu einstakra þingmála aftur í tímann. Flokkarnir tveir eru m.ö.o. hættir að skarast og nánast hættir að skiptast á öðru en skömmum og svívirðingum. Og þetta eru flokkar, sem mörgum hafa lengi sýnzt vera svo að segja alveg eins. Hvað hefur gerzt? Svarið virðist vera þetta: repúblíkanar hafa fært sig fjær miðju fyrir tilstilli illskeyttra öfgamanna, en demókratar hafa staðið kyrrir á sínum stað. Ósættið og óbilgirnin í bandarískum stjórnmálum virðast vera mun meiri nú en oftast áður, e.t.v. meiri en nokkru sinni síðan í borgarastríðinu 1861-65. Það er íhugunarefni bæði handa Bandaríkjamönnum sjálfum og vinum þeirra og bandamönnum í Evrópu og annars staðar. Fjölmiðlalögin hafa með líku lagi svipt hulunni af djúpri sprungu hér heima. Menn og flokkar, sem hafa skipzt á um að stjórna landinu á víxl allan lýðveldistímann, yfirleitt í býsna keimlíkum samsteypustjórnum, takast nú á af meiri hörku en áður, svo að nærri lætur, að landið logi nú í ófriði. ,"Það ríkir vargöld á Íslandi," segir Morgunblaðið. Hvað hefur gerzt? Svarið blasir við: fjölmiðlalögin fylltu mælinn. Ríkisstjórnin keyrði lögin í gegnum þingið með offorsi og virti að vettugi viðvaranir margra lögfræðinga og annarra um það, að lögin kunni hvorki að standast ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar né alþjóðasamþykktir. Ríkisstjórnin reyndi ekki að leyna því, að lögin voru berlega sett til þess að þagga niður í þeim miðlum, sem hafa gagnrýnt ríkisstjórnina. Málsvarar laganna innan þings og utan drógu fram einstök atriði úr þeirri gagnrýni máli sínu til stuðnings. Þeir virtust ekki vita, hvað þeir voru að gera. Hvernig gat þetta gerzt? Hvernig má það vera, að meiri hluti Alþingis hefur samþykkt lög, sem berlega er ætlað að þagga niður í fjórum af sex helztu fjölmiðlum landsins? - vitandi það, að þessir fjölmiðlar munu að líkindum lognast út af, ef lögin verða staðfest. Sjálfstæðisflokkurinn hefur undangengin ár verið á svipaðri siglingu og Repúblíkanaflokkurinn í Bandaríkjunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að breytast úr prúðri og frjálslegri borgaralegri breiðfylkingu í óheflaðan og harðdrægan öfgaflokk, svo sem ráða má af hatrömum málflutningi nokkurra helztu málsvara flokksins innan þings sem utan, jafnan þó að varaformanninum undan skildum. Sumir málflytjendur flokksins hafa sýnt ýmis merki þess, að þeir skeyti hvorki um skömm né heiður, enda bíða a.m.k. tveir þeirra dóms eða eiga lögsókn yfir höfðum sér fyrir róg, ritstuld og illmælgi, svo að fátt eitt sé nefnt. Setjum málið í samhengi. Sjálfstæðisflokkurinn skeytti ekki um að hlýða kalli allra þeirra, sem vöruðu árum saman við hagrænum og siðrænum afleiðingum þess að afhenda fáum útvöldum einkaaðgang að sameiginlegum fiskimiðum þjóðarinnar. Flokkur, sem heyktist á að hlýða því kalli fyrr en eftir dúk og disk, og þá með ólund og aðeins að nafninu til, hlýtur að hafa laskazt. Flokkur, sem hefur reitt fram þjóðareignir á rússnesku silfurfati handa fáum útvöldum og harðneitar jafnframt að upplýsa, hvernig hann fjármagnar starfsemi sína, hlýtur að hafa skaddazt. Stjórnmálaflokkur, sem stendur í illvígri baráttu við einkafyrirtæki um ítök í atvinnulífi landsins, hlýtur að hafa skemmzt. Flokkur, sem reynir síðan að loka frjálsum fjölmiðlum með lögboði - öllum nema þeim tveim, sem flokkurinn þykist hafa í hendi sinni - er kominn langt út fyrir viðunandi velsæmismörk. Fjölmennur flokkur, sem gerir illskeytta ofstækismenn að málsvörum sínum, menn, sem leggja flokksmælikvarða á alla hluti og virðast eins og ýmsir bandarískir repúblíkanar líta svo á, að stjórnmál séu stríð og allt sé þar leyfilegt, og eiga í sífelldum útistöðum við allt og alla og mega helzt ekkert aumt sjá án þess að þurfa að traðka á því - þvílíkur flokkur þarf að fá frið til að hugsa sinn gang. Skuggi siðaveiklunar grúfir yfir Sjálfstæðisflokknum og markar í auknum mæli störf hans og stefnu og mun fylgja honum inn í framtíðina. Sjálfstæðismenn geta ekki kvartað undan því, að þeir hafi ekki verið varaðir við. Þeir fóru í útreiðartúr á tígrisdýri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Einstakir atburðir í lífi þjóðar eiga það til að afhjúpa bresti, sem ýmsum voru áður huldir. Byrjum í Bandaríkjunum. Kjör George Bush til forsetaembættisins árið 2000, ef kjör skyldi kalla, svipti hulunni af þverklofningi bandarísku þjóðarinnar í tvær nokkurn veginn jafnvígar fylkingar. Athuganir stjórnmálafræðinga sýna, að flokkarnir tveir þar vestra, demókratar og repúblíkanar, hafa fjarlægzt svo hvor annan, að þeir þingmenn demókrata, sem standa lengst til hægri, eru nú vinstra megin við þá þingmenn repúblíkana, sem standa lengst til vinstri. Þessi ályktun er reist á skýrslum um atkvæði þingmanna við afgreiðslu einstakra þingmála aftur í tímann. Flokkarnir tveir eru m.ö.o. hættir að skarast og nánast hættir að skiptast á öðru en skömmum og svívirðingum. Og þetta eru flokkar, sem mörgum hafa lengi sýnzt vera svo að segja alveg eins. Hvað hefur gerzt? Svarið virðist vera þetta: repúblíkanar hafa fært sig fjær miðju fyrir tilstilli illskeyttra öfgamanna, en demókratar hafa staðið kyrrir á sínum stað. Ósættið og óbilgirnin í bandarískum stjórnmálum virðast vera mun meiri nú en oftast áður, e.t.v. meiri en nokkru sinni síðan í borgarastríðinu 1861-65. Það er íhugunarefni bæði handa Bandaríkjamönnum sjálfum og vinum þeirra og bandamönnum í Evrópu og annars staðar. Fjölmiðlalögin hafa með líku lagi svipt hulunni af djúpri sprungu hér heima. Menn og flokkar, sem hafa skipzt á um að stjórna landinu á víxl allan lýðveldistímann, yfirleitt í býsna keimlíkum samsteypustjórnum, takast nú á af meiri hörku en áður, svo að nærri lætur, að landið logi nú í ófriði. ,"Það ríkir vargöld á Íslandi," segir Morgunblaðið. Hvað hefur gerzt? Svarið blasir við: fjölmiðlalögin fylltu mælinn. Ríkisstjórnin keyrði lögin í gegnum þingið með offorsi og virti að vettugi viðvaranir margra lögfræðinga og annarra um það, að lögin kunni hvorki að standast ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar né alþjóðasamþykktir. Ríkisstjórnin reyndi ekki að leyna því, að lögin voru berlega sett til þess að þagga niður í þeim miðlum, sem hafa gagnrýnt ríkisstjórnina. Málsvarar laganna innan þings og utan drógu fram einstök atriði úr þeirri gagnrýni máli sínu til stuðnings. Þeir virtust ekki vita, hvað þeir voru að gera. Hvernig gat þetta gerzt? Hvernig má það vera, að meiri hluti Alþingis hefur samþykkt lög, sem berlega er ætlað að þagga niður í fjórum af sex helztu fjölmiðlum landsins? - vitandi það, að þessir fjölmiðlar munu að líkindum lognast út af, ef lögin verða staðfest. Sjálfstæðisflokkurinn hefur undangengin ár verið á svipaðri siglingu og Repúblíkanaflokkurinn í Bandaríkjunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að breytast úr prúðri og frjálslegri borgaralegri breiðfylkingu í óheflaðan og harðdrægan öfgaflokk, svo sem ráða má af hatrömum málflutningi nokkurra helztu málsvara flokksins innan þings sem utan, jafnan þó að varaformanninum undan skildum. Sumir málflytjendur flokksins hafa sýnt ýmis merki þess, að þeir skeyti hvorki um skömm né heiður, enda bíða a.m.k. tveir þeirra dóms eða eiga lögsókn yfir höfðum sér fyrir róg, ritstuld og illmælgi, svo að fátt eitt sé nefnt. Setjum málið í samhengi. Sjálfstæðisflokkurinn skeytti ekki um að hlýða kalli allra þeirra, sem vöruðu árum saman við hagrænum og siðrænum afleiðingum þess að afhenda fáum útvöldum einkaaðgang að sameiginlegum fiskimiðum þjóðarinnar. Flokkur, sem heyktist á að hlýða því kalli fyrr en eftir dúk og disk, og þá með ólund og aðeins að nafninu til, hlýtur að hafa laskazt. Flokkur, sem hefur reitt fram þjóðareignir á rússnesku silfurfati handa fáum útvöldum og harðneitar jafnframt að upplýsa, hvernig hann fjármagnar starfsemi sína, hlýtur að hafa skaddazt. Stjórnmálaflokkur, sem stendur í illvígri baráttu við einkafyrirtæki um ítök í atvinnulífi landsins, hlýtur að hafa skemmzt. Flokkur, sem reynir síðan að loka frjálsum fjölmiðlum með lögboði - öllum nema þeim tveim, sem flokkurinn þykist hafa í hendi sinni - er kominn langt út fyrir viðunandi velsæmismörk. Fjölmennur flokkur, sem gerir illskeytta ofstækismenn að málsvörum sínum, menn, sem leggja flokksmælikvarða á alla hluti og virðast eins og ýmsir bandarískir repúblíkanar líta svo á, að stjórnmál séu stríð og allt sé þar leyfilegt, og eiga í sífelldum útistöðum við allt og alla og mega helzt ekkert aumt sjá án þess að þurfa að traðka á því - þvílíkur flokkur þarf að fá frið til að hugsa sinn gang. Skuggi siðaveiklunar grúfir yfir Sjálfstæðisflokknum og markar í auknum mæli störf hans og stefnu og mun fylgja honum inn í framtíðina. Sjálfstæðismenn geta ekki kvartað undan því, að þeir hafi ekki verið varaðir við. Þeir fóru í útreiðartúr á tígrisdýri.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun