Menning

Á gömlum bens yfir Alpana

"Skemmtilegustu ferðasögurnar mínar eru frá því 1994 þegar ég og félagar mínir í hljómsveitinni Stingandi strá fórum í tónleikaferð um Evrópu," segir Hrólfur Sæmundsson, söngvari og óperustjóri. "Við vorum í fjóra mánuði, fórum út með nánast enga peninga og lifðum á spilamennsku. Við byrjuðum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og vorum svo heillengi í Frakklandi, þar af mánuð í Marseille þar sem við slógum í gegn, okkur til mikillar furðu. Tveimur dögum eftir síðustu tónleikana þar áttum við að spila í Berlín, 1.800 kílómetra í burtu. Við vorum á gömlum Benstrukk sem komst ekki hraðar en áttatíu kílómetra á klukkustund og keyrðum á honum yfir Alpana.. Á þýsku hraðbrautinni vorum við stoppaðir af löggunni vegna þess að Bensinn var á ólöglegum númerum og kyrrsettir í sætu sveitaþorpi sem hét Butchbach og kúrði í dal undir hraðbrautinni. Þetta þýddi að við vorum búnir að missa af tónleikunum í Berlín en fórum þangað samt," segir Hrólfur og heldur áfram: "Við komum klukkan þrjú um nótt, í þoku og rigningu, og leist illa á blikuna enda kominn nóvember. Við ákváðum að yfirgefa þennan ljóta stað eins fljótt og við gætum daginn eftir. Þá fengum við hins vegar að vita að tónleikarnir væru á dagskrá eftir allt saman og komumst að því að þessi gráa og guggna borg var skemmtilegri en okkur óraði fyrir. Við áttum flug heim frá Danmörku og lögðum ekki af stað þangað fyrr en á síðustu stundu því það var svo gaman í Berlín. Við fundum flugvöllinn á korti og þeystum í áttina þangað, sáum flugturn og flugvélar og töldum okkur örugga. Eftir því sem við nálguðumst fór nú allt að minnka og þegar við komum sáum við að þetta var módelflugvöllur, vélarnar pínulitlar og flugturninn tæpir tveir metrar. Þetta minnti á atriði úr kvikmyndinni Spinal Tap. Sem betur fer fundum við svo hinn flugvöllinn og náðum vélinni heim."

Hrólfur er nú virðulegur Sumaróperustjóri og innan skamms hefjast æfingar á Galdraskyttunni eftir Weber, sem sýnd verður í Þjóðleikhúsinu í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. "Ég verð samt alltaf rokkari. Og hver veit nema Stingandi strá leggi land undir fót í sumar..."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×