Viðskipti innlent

HugurAx verður til

Páll Freysteinsson
Páll Freysteinsson

Með sameiningu hugbúnaðarfyrirtækjanna Hugar og AX hugbúnaðarhúss varð til eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins með um 125 starfsmenn. Sameinað fyrirtæki kallast HugurAx.

"Viðskiptaumhverfið hér á landi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, fyrirtækin eru orðin stærri og starfa á alþjóðamarkaði. Við höfum því ákveðið að sameina krafta þessara tveggja góðu fyrirtækja til þess að geta tekist á við enn umfangsmeiri og flóknari verkefni í samvinnu við viðskiptavini okkar," segir Páll Freysteinsson, framkvæmdastjóri HugarAx. Samtals eru viðskiptavinir sameinaðs fyrirtækis um 4.000 talsins.

Fyrirtækin eiga sér nokkra sögu að baki. Hugur var stofnað árið 1986 og fagnar tuttugu ára afmæli á árinu og Ax hugbúnaðarhús var stofnað árið 1999 með sameiningu gamalgróinna hugbúnaðarfyrirtækja. Bæði fyrirtækin hafa síðustu ár gengið í gegnum gagngera endurskoðun og endurskipulagningu og er rekstur beggja nú sagður ganga mjög vel og mörg spennandi verkefni fram undan.

Sigríður Olgeirsdóttir, sem var framkvæmdastjóri Ax hugbúnaðarhúss, hverfur til annarra starfa. Bæði fyrirtækin eru dótturfélög Kögunar, sem er í meirihlutaeigu Dagsbrúnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×