Viðskipti innlent

Kodak í miklum vanda

Stafræn myndavél frá Kodak
Kodak þykir ekki hafa náð að mæta kröfum neytenda hvað varðar stafrænar myndavélar. Félagið var í fremstu röð í framleiðslu hefðbundinna myndavéla með filmu.
Stafræn myndavél frá Kodak Kodak þykir ekki hafa náð að mæta kröfum neytenda hvað varðar stafrænar myndavélar. Félagið var í fremstu röð í framleiðslu hefðbundinna myndavéla með filmu.

Myndavélaframleiðandinn Kodak tapaði tæplega 21 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi og jókst tap fyrirtækisins um rúm áttatíu prósent milli fjórðunga. Bréf í fyrirtækinu féllu um tæp fjórtán prósent í Kauphöllinni í New York í kjölfar fregnanna.

Tekjur fyrirtækisins námu tæpum tvö hundruð og fimmtíu milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og drógust saman um níu prósent.

Kodak hefur átt í mesta basli síðan stafrænar myndavélar hófu innreið sína á markaðinn en fyrirtækið hafði löngum sérhæft sig í framleiðslu hefðbundinna myndavéla með filmu. "Rekstrargrundvöllur Kodak eins og við þekkjum það er nánast horfinn. Það er ljóst að skipuleggja þarf fyrirtækið upp á nýtt og þ einbeita sér að því að finna aðra möguleika til að afla sér tekna," sagði Shannon Cross hjá greiningarfyrirtækinu Cross Research.

Kodak hefur tilkynnt að tuttugu og sjö þúsund starfsmenn fyrirtækisins eigi von á uppsagnarbréfum. Dan Carp, fyrrverandi forstjóra Kodak, er að mestu kennt um að fyrirtækinu hafi ekki tekist að aðlagast breyttu umhverfi á myndavélamarkaði. Carp tók pokann sinn í maí á þessu ári og kvaddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×