Þörf er á frekari hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands til að slá á þenslu og draga úr verðbólgu. Þetta kom fram í viðræðum sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) við sérfræðinga og embættismenn hér sem fram fóru fyrir helgi í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu sjóðsins um íslensk efnahagsmál. Þá segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að stjórnvöld verði að breyta skipulagi íbúðalánasjóðs því öðrum kosti vinni samkeppni hans við bankanna á lánamarkaði á móti peningastefnu Seðlabankans.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur þó í skýrslu sinni að hér séu horfur almennt góðar, enda undirstöður efnahagslífins sterkar og markaðir sveigjanlegir og opnir. Vaxandi ójöfnuður í þjóðarbúskapnum þykir þó áhyggjuefni, en hann kemur meðal annars fram í auknum viðskiptahalla og verðbólguþróun á undanförnum mánuðum.
Þannig telur sjóðurinn að frekari aðhald í ríkisfjármálum sé nauðsynlegt til að draga úr þenslu og verðbólgu, sem þó er spáð að verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í eitt og hálft ár til viðbótar. Meðal þess sem lagt er til er að fjárlög verði gerð til margra ára í senn þar sem það ýti undir stöðugleika og stefnufestu í opinberum útgjöldum.
Þá hrósar framkvæmdastjórn sjóðsins Seðlabankanum fyrir stefnu sína í vaxtamálum og fagnar vísbendingum um að peningastefnan sé farin að hafa aukin áhrif. Sjóðurinn telur að gengisvísitala krónunnar sé nú nálægt jafnvægisgildi og spáir 4 til 5 prósenta hagvexti, auk þess sem viðskiptahalli verði 12,5 prósent af vergri landsframleiðslu á þessu ári. Hagvöxtur og viðskiptahalli minnki svo hratt á næsta ári.