Menning

Rússnesk skáld

Félagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Rússlands, efnir til kynningar á nokkrum rússneskum skáldum og verkum þeirra nú í vetur. Fyrir jól verða þrjú skáld tekin fyrir: Gogol, Tolstoj og Vysotský.

Fyrsta skáldakvöldið verður í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105, í kvöld og hefst kl. 20. Þar flytur Árni Bergmann rithöfundur erindi um Nikolaj Vasilevitsj Gogol (1809-1852) og skáldskap hans, en Hávallaútgáfan hefur nýlega sent frá sér sagnasafn Gogols Mírgorod og hafði áður gefið út Pétursborgarsögur hans. Lesið verður úr þessum þýðingum, sagt frá forlaginu og útgáfubækur þess liggja frammi. Lítil sýning á bókum og myndum helguð skáldinu Gogol verður sett upp.

Annað skáldakvöldið, um Lév Tolstoj (1828-1910), verður 6. des. kl. 20. Þá ræðir Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, sem var við nám í rússneskum bókmenntum í Moskvu, um skáldið og lesið verður úr verkum þess, ma. les Baldvin Halldórsson leikari upp úr nýútkominni þýðingu Gunnars Dal, rithöfundar og heimspekings, á smásögum Tolstojs. Þriðja rússneska skáldakvöldið í MÍR og það síðasta fyrir jól verður 13. des. og hefst kl. 20.

Þá verður fjallað um Vladimír Vysotský (1938-1980), skáld, leikara, tónlistarmann og trúbador. Sergej Gúshín sendiráðsritari fjallar um Vysotský og skýrir hvers vegna hann varð eins konar goðsagnapersóna í Sovétríkjunum þegar í lifanda lífi. Skáldakynningar MÍR á miðvikudögum eru haldnar í samvinnu við sendiráð Rússneska sambandsríkisins, þýðendur og útgefendur og eru síðbúið framhald Rússnesku menningardaganna í Reykjavík í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×