Tónlist

Rappstjarna framtíðarinnar

Ætlar út að borða á Ruby Tuesday til þess að fagna sigrinum í rímnaflæðikeppninni.
Ætlar út að borða á Ruby Tuesday til þess að fagna sigrinum í rímnaflæðikeppninni. MYND/Valli

Hinn 15 ára gamli Daníel Alvin sigraði í rímnaflæðikeppni Miðbergs um síðustu helgi. Hann þótti skrefi á undan jafnöldrum sínum í textagerð og flutningi.

„Ég er mjög sáttur, ætla fagna þessu með að fara út að borða á Ruby Tuesday,“ segir Daníel Alvin Haraldsson sem gerði sér lítið fyrir og vann rímnaflæðikeppni Miðbergs sem haldin var síðasta föstudag. Af þeim tæplega tíu sem tóku þátt þótti Daníel bera af með lagi sínu „Skrímslið og reiðin“, en dómnefnd var sammála því að Daníel væri skrefi á undan jafnöldrum sínum hvað varðar textagerð og flutning.

Í laginu fæst Daníel ekki við neitt smámál, en það er tilhugalífið, þá sérstaklega ástarsorgin sem er til umfjöllunar. „Ég var ekki búinn að æfa mig mikið, en undirspilið fékk ég aðeins þremur dögum fyrir keppni og þá þurfti ég að spýta í lófana,“ segir hann. Í verðlaun voru 15 þúsund krónur, MP3 spilari og nýútkominn geisladiskur rapparans Bents, sem Daníel metur mikið. Sjálfur hefur hann tekið upp fjögur lög, sigurlagið ekki þar með talið, en lögin er ekki hægt að nálgast að svo stöddu, „en eru væntanleg á myspace“.

Daníel Alvin kýs að láta kalla sig Danna A þegar hann er við hljóðnemann og neitar öllum tengslum við rapparann Sesar A. Hann er 15 ára gamall og nemur við Engjaskóla í Grafarvogi. Hann fæddist á Íslandi, en fjórum árum ævinnar eyddi hann í Kaliforníu og Hawaii ásamt fjölskyldu sinni. Hann segist staðráðinn í að fara í framhaldsskóla á næsta ári en hefur enn ekki ákveðið hvert förinni skal heitið, en það skal vera skóli sem tekur vel á móti upprennandi rappstjörnum og skáldum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×