Tónlist

Safnplata frá Ladda

Laddi er að gefa út safnplötuna Hver er sinnar kæfu smiður.
Laddi er að gefa út safnplötuna Hver er sinnar kæfu smiður. MYND/GVA

Skemmtikrafturinn Laddi gefur á næstunni út tvöföldu safnplötuna Hver er sinnar kæfu smiður. Platan hefur að geyma öll vinsælustu lög hans, auk hinna ýmsu grínatriða sem hann hefur gefið út. Alls er að finna fimmtíu mismunandi upptökur á plötunum tveimur, þar á meðal lög með HLH-flokknum og efni frá Halla og Ladda.

„Ég fór að spekúlera því ég á stórafmæli í janúar og þá datt mér þetta í hug,“ segir Laddi, sem verður sextugur á næsta ári. „Mér fannst allt í lagi að nota þetta tækifæri enda kominn tími á þetta.“

Laddi hefur verið mjög afkastamikill á ferli sínum. Hann hefur gefið út um þrjátíu plötur og hefur hann 22 sinnum náð gullsölu og tvisvar platínusölu.

Laddi leikur um þessar mundir í Viltu finna milljón? og Ronju ræningjadóttur í Borgarleikhúsinu auk þess sem æfingar eru nýhafnar á leikritinu Ó fagra veröld eftir Anthony Neilson í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Verður það frumsýnt milli jóla og nýárs. Þess á milli hefur Laddi verið með uppistand sem hefur vakið mikla lukku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×