Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods heldur áfram ótrúlegri sigurgöngu sinni á golfvellinum, en í kvöld landaði hann sigri á Deutsche Bank mótinu á PGA mótaröðinni eftir ótrúlegan endasprett.
Vijay Singh hafði þriggja högga forystu fyrir lokahringinn í dag, eftir að hafa sett vallarmet með því að leika á 61 höggi í gær. Tiger Woods gerði hinsvegar það sem hann þurfti eins og venjulega og lauk keppni í dag á 63 höggum, eða átta undir pari. Singh varð annar, tveimur höggum á eftir. Þetta var fimmti sigur Woods í röð og þar af eru tvö risamót.