Menning

Ævisaga Laxness gefin út á ensku

Ævisagan um Nóbelskáldið Halldórs Kiljan Laxness eftir Halldór Guðmundsson verður gefin út á ensku. Samningar þar að lútandi hafa tekist á milli JPV útgáfu og MacLehose Press í London sem gefur bókina út í samvinnu við Quercus-forlagið.

Fram kemur í tilkynningu frá JPV að stofnandi MacLehose Press sé einn kunnasti bókmenntaútgefandi Bretlands, Christopher MacLehose, sem stýrði Harvill Press í 20 ár. Meðal þeirra höfunda sem hann gaf þar út voru Haruki Murakami, Ismael Kadare, Henning Mankell, Arnaldur Indriðason og Halldór Laxness. Phil Roughton þýðir bókina en hann hefur meðal annars þýtt Íslandsklukkuna eftir Laxness fyrir Random House í Bandaríkjunum.

Bókin Halldór Laxness - ævisaga kom út hjá JPV útgáfu árið 2004 og hlaut Halldór Guðmundsson Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og rita almenns efnis fyrir hana. Bókin hefur þegar verið seld til Noregs, Danmerkur, Þýskalands og Svíþjóðar og eru útgáfurnar væntanlegar á næsta ári samkvæmt tilkynningu JPV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×