Myndlistarmennirnir Hlaðgerður Íris Björnsdóttir og Aron Reyr Sverrisson opna sýninu á verkum sínum í Listasafni Reykjanesbæjar á morgun kl. 14. Sýningin ber yfirskriftina „Tvísýna“ og er haldin í Duushúsum.
Hlaðgerður Íris er þekkt fyrir ofurraunsæislegar en jafnframt rómantískar olíumyndir sínar af börnum en Aron Reyr sýnir uppdiktaðar landslagsmyndir og myndir af íverustöðum sem „hrista upp í viðteknu viðhorfi okkar til rómantískrar tjáningar“, eins og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur nefnir í inngangi sínum í sýningarskrá.
Hann nefnir ennfremur að margir gætu freistast til þess að líta á verk þeirra beggja sem „einskonar sýnisbækur grundvallarviðhorfa í allri myndlist“ en í þeim búi svo miklu meira en það enda þrífist myndlist þeirra beggja í víxlverkun þess þekkta og óþekkta.
Sýningin er opin alla daga milli 13-17.30 og stendur til 4. mars.
Hið þekkta og óþekkta
