Menning

Minning Guðjóns Samúelssonar

Fræg mynd tekin við opnun Sundhallarinnar og gefin út á póstkorti og er líklega eftir Ólaf Magnússon ljósmyndara. Myndin sýnir mætavel hvílíkur listamaður Guðjón var.
Fræg mynd tekin við opnun Sundhallarinnar og gefin út á póstkorti og er líklega eftir Ólaf Magnússon ljósmyndara. Myndin sýnir mætavel hvílíkur listamaður Guðjón var.

Pétur Ármannsson arkitekt og einn reyndasti rannsóknarmaður okkar um þessar mundir í sögu íslenskrar húsagerðar heldur í kvöld fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands en í dag, 16. apríl, eru 120 ár liðin frá fæðingu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Af því tilefni mun Pétur H. Ármannsson arkitekt FAÍ halda fyrirlestur um fjölþætt framlag hans til byggingarlistar og skipulagsmála.

Byggir Pétur þar á rannsóknum sínum sem hann var styrktur til að vinna fyrir fáum árum sem miða að því að ná saman skrá um verk Guðjóns en slík skrá var ekki til: á fimmta hundrað húsa voru byggð eftir teikningum hans og þá eru ótalin hús sem hann vann en skráð eru eða uppá­rituð af aðstoðarmönnum hans eins og Einari Erlendssyni. Verkaskránni hefur Pétur komið í gagnagrunn. Þá er eftir að kanna hús sem ekki risu og teikningar af þeim.

Guðjón Samúelsson (1887-1950) var fyrstur Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist árið 1919. Hann gegndi embætti Húsameistara ríkisins um 30 ára skeið frá 1920 til 1950. Á því tímabili teiknaði hann flest stórhýsi sem byggð voru á vegum ríkisins auk fjölda smærri bygginga.

 

Guðjón Samúelsson húsameistari

Með hugmyndum sínum og verkum hafði hann víðtæk áhrif á þróun íslenskrar húsagerðarlistar á tímabilinu frá 1915 og fram yfir 1930. Hann átti sæti í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins frá stofnun hennar og á vegum hennar vann hann skipulagsuppdrætti af flestum þéttbýlisstöðum landsins á árunum 1921 til 1938. Þá var Guðjón Samúelsson upphafsmaður þess að nýta hrafntinnu, kvars og silfurberg til að húða yfirborð steinsteyptra útveggja í tengslum við byggingu Þjóðleikhússins árið 1933. Guðjón naut mikils atlætis af hálfu ráðamanna og á sínum tíma kom út rit með ljósmyndum af húsum hans sem hefur verið ófáanlegt um áratugi. Rannsóknir Péturs miða að því að koma verkaskránni á hreint sem er grundvöllur þess að hægt sé að vinna frekara yfirlit um þennan mikla listamann.

Fyrirlesturinn er samstarfsverkefni Arkitektafélags Íslands og Háskóla Íslands. Hann fer fram í hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands við Suðurgötu mánudaginn 16. apríl næstkomandi og hefst kl. 20:00.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×