Menning

Konungskomu 1907 minnst

Konungur umkringdur þegnum sínum á tali við Hannes Hafstein að morgni 30. júlí.
Konungur umkringdur þegnum sínum á tali við Hannes Hafstein að morgni 30. júlí.

Í sumar verða hundrað ár liðin frá því að Friðrik áttundi konungur sótti Íslendinga heim en af því tilefni verður opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni í dag.

Þar er á veggspjöldum rakin drögin að heimsókninni, ferðalag konungs um landið og margvíslegur viðbúnaður sem þjóðin hafði uppi vegna heimsóknarinnar, þar eru til sýnis ýmsir gripir frá þessum tíma sem mönnum okkar tíðar kann að þykja lítt minnisverðir en voru með skýrum hætti, ef betur er að gáð, mikilsverðir fyrir íslenska samfélagsþróun, sjálfstæði í orði og borði.

Benedikta prinsessa, barnabarn Friðriks Kristjánssonar, kom hingað fyrir fáum dögum og leit til með undirbúningi sýningarinnar. Heimsóknir einstaklinga úr dönsku konungsfjölskyldunni voru á fyrri helmingi síðustu aldar miklu tíðari en síðar varð. Bæði hafði Friðrik níundi, faðir Margrétar Þórhildar, á yngri árum hér oft viðdvöl sem liðsmaður á eftirlitsskipum konungs og eins sóttu foreldrar hans hingað í veiði. Sókn þessa fólks hingað norður byggði ekki síst á þeim viðtökum sem Friðrik áttundi og Kristján níundi fengu hér 1874 og 1907 sem voru konunglegar.

Veg fyrir kóngErfitt er nútímamönnum að gera sér í hugarlund hvernig hingaðkoma konungs 1907 var. Gríðarlegt tilstand var: stór hluti af fjárlögum þessa árs var lagður í vegagerð um Suðurland en til stóð að konungur færi þar um í vagnalest. Var vögnum safnað af öllu landinu til að flytja föruneyti konungs. Þegar til kom vildi Friðrik sitja hest og fór því föruneyti hans ríðandi að mestu. Hingað kom í sveit konungs mikill fjöldi danskra blaðamanna og fyrirmenna úr dönsku opinberu lífi. Alþingi bauð hingað 30 dönskum þingmönnum og endurgalt þar með heimboð íslenskra þingmanna frá árinu áður en þá fóru 35 af 40 alþingismönnum til Hafnar í heimsókn. Frítt föruneytiHingað til lands kom konungur með föruneyti á þremur skipum.

Var lagt upp frá Tollbúðinni hinn 21. júlí og var mikill mannfjöldi við strandlengjuna til að kveðja konung, þúsundir manna segja samtímaheimildir. Var sægur skipa sem fylgdi skipunum þremur, Birma, Atlanta og Geysi, á leið. Fyrri skipin voru fengin að láni frá Austur-Asíufélaginu, því aldna félagi sem hafði um aldaskeið einokun á viðskiptum Dana við Asíulönd. Birma var þeirra stærst, 5.000 smálestir að stærð. Tvö hundruð manns voru um borð, tuttugu þjónar, hljómsveitarmenn, kokkar auk gestanna og áhafnar. FæreyjastoppFyrsti áfangi ferðarinnar voru Færeyjar og þangað kom konungsflotinn 24. júní. Reru heimamenn tugum báta undir flöggum til móts við flotann. Dvaldi konungur með fylgdarliði sínu í Færeyjum í þrjá sólarhringa, fór víða um eyjarnar, skoðaði atvinnulíf og híbýli manna. Lagt var upp til Íslands að morgni 27. júlí. Sóttist ferðin það vel að skip konungs máttu liggja heilan dag undan Akranesi til að ná réttum komudegi til Reykjavíkur. Íslenskir og danskir fánarÍbúar Reykjavíkur voru um tíu þúsund sumarið 1907. Þar var uppi fótur og fit hinn 29. júlí: menn voru þegar teknir að flagga og mátti víða sjá hvítbláinn við hún innan um Dannebrog. Konungur skyldi gista í húsi Lærða skólans, en gestum var víða komið niður: á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Móttökunefnd hafði aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu. Skipað hafði verið við lægi undan landi en svo stór skip sem voru í fylgd konungs voru fátíð hér og engin höfn enn í bænum. Skyldi konungur stíga á land að morgni 30. júlí kl. 10 og skyldi bátur hans leggja að gömlu steinbryggjunni. „… ríki yðar.“Þann dag voru allir í bænum í sparifötunum og komnir niður í Pósthússtræti þar sem nú er Tryggvagata að hylla konung. Erlend fyrirmenni og innlend í einkennisbúningum, karlar í jakkafötum og sumir á fornklæðum, konur á skautbúningum, upphlut og dönskum búningum, börnin þvegin og snyrt og stóðu hvítklæddar ungmeyjar í röð sitthvorum megin við gönguleið konungs: pláss var tekið frá fyrir fimmtíu innlenda og erlenda ljósmyndara.

Er skipafloti konungs seig inn sundin var skotið úr fallbyssum af frönsku herskipi er hér lág við festar. Hannes Hafstein hélt þegar til skips konungs og stundvíslega kl. 10 lagðist konungsbáturinn að steinbryggjunni, þeir konungur og Hannes stigu á land og Hannes bauð kóng sinn velkominn með handabandi: „Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur!“ Almenn hrifningHér á landi dvaldi konungur ásamt fylgdarliði til 15. ágúst. Hann fór um Suðurland ríðandi, sigldi síðan flota sínum vestur fyrir land, tók land á Ísafirði, fór síðan norður fyrir og kom við á Akureyri og loks austur um með lokaáfanga á Seyðisfirði. Hvarvetna sem Friðrik áttundi fór kom hann fram við háa og lága sem jafningja sína, gaf sig að múgamönnum rétt sem embættismönnum. Hann var forvitinn um hagi fólks, alúðlegur og alþýðlegur. Víst er að móttökur þær sem hann fékk hér á landi hafa hlýjað honum um hjarta­rætur. Samtímaheimildir danskar eru fullar af hrifningu, geðshræringum, yfir viðtökum. Enda fór svo að konungur hreyfði í för sinni sjálfstæðismálum þjóðarinnar, nánast í blóra við ráðherra sína. Trú á sjálfa sigEn hann gaf íslenskum almenningi annað sjálfstæði ekki minna að virði: hann veitti þeim tækifæri í samtakamætti að skarta öllu sínu með þeim árangri að þeir fengu hrós fyrir og gátu verið stoltir af: bara konungsvegurinn austur var gríðarstórt afrek og synd að hann skuli ekki betur varðveittur og nýttur.

Margt af viðbúnaði hér var með séríslenskum hætti: til fundar við konung riðu bændur í Eyjafirði hópreið til Akureyrar og sátu einungis hvíta hesta. Er margt í lýsingum gestanna með sérstökum sakleysisbrag. Því heimsókn konungs var ekki síður landkynning sem beindist einkum gagnvart Dönum sjálfum og hefur vafalítið átt sinn þátt í hinni djúpstæðu lotningu sem hefur um langan aldur ríkt í Danmörku fyrir Íslandi, sögu og náttúru. Því er konungsheimsóknin björt minning þeim sem vilja rifja hana upp nú hundrað árum síðar.

Sýningin í Þjóðarbókhlöðu verður opnuð í dag af forseta Íslands og verður opin til 1. september. Landsbókasafn nýtur góðs af því en Þjóðminjasafn Íslands, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Þjóðskjalasafn Íslands, Seðlabanki Íslands og Vegagerðin hafa lánað ljósmyndir og muni. Einnig eru munir á sýningunni sem eru í einkaeign. Þau sem hafa komið að undirbúningi sýningarinnar eru Auður Styrkársdóttir, Helgi Braga, Jökull Sævarsson og Mark Cohagen. Hönnuður sýningarspjalda er Ólafur J. Engilbertsson, en sýningarstjóri er Emilía Sigmarsdóttir. Sýningin er styrkt af forsætisráðuneytinu og Dansk-íslenska viðskiptaráðinu.

pbb@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×