Tónlist

Leikið öfganna á milli

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytur í kvöld nýtt verk eftir Þórð Magnússon tónskáld.
Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytur í kvöld nýtt verk eftir Þórð Magnússon tónskáld. MYND/Hörður

Sinfóníuhljómsveit Íslands slær botninn í Sjostakovitsj-maraþon sitt á tónleikum í kvöld og frumflytur nýtt verk eftir Þórð Magnússon.

Fyrir fimm árum ýtti aðalhljómsveitarstjórinn Rumon Gamba því metnaðarfulla verkefni úr vör að sveitin flytti allar sinfóníur rússneska tónskáldsins Dímítríj Sjostakovitsj.

Sjostakovitsj var einn mesti meistari sinfóníska formsins á 20. öld og fimmtán sinfóníur hans eru magnaður vitnis­burður um hina viðsjárverðu tíma sem hann lifði. Þær eru verk mikilla öfga og innihalda ólgandi ástríður, hugrekki, trega og sorg.

Vert er að benda á fyrir þá sem vilja endurnýja kynnin af verkunum að Sjostakovitsj-röðin verður á dagskrá Rásar 1 á þriðjudagskvöldum í sumar og mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur kynna sinfóníurnar í tali og tónum.

Á tónleikunum verður einnig flutt nýtt verk eftir Þórð Magnússon sem ber heitið „Það mótlæti þankinn ber“ og er þriðja verk Þórðar sem flutt er af Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Þetta er svokölluð lagboðavísa en þegar rímnamenn voru að leggja á minni laglínur sem þeir notuðu settu þeir inn einn einfaldan texta sem var auðvelt að muna til að auðvelda sér að muna hvaða laglína átti við hvaða ljóð,“ útskýrir Þórður. Þessi lagstúfur sem upphaflega var aðeins tvær nótur er nú orðinn að liðlega tuttugu mínútna tónverki. Þórður segir verkið í rökréttu framhaldi af síðasta verki sem hann samdi en hugmyndina sótti hann í gnægtarbrunn þess sem á tyllidögum er oft kennt við menningararf.

„Ég fékk það áhugaverða verkefni að skrifa niður rímnalög eftir upptökum í tengslum við bók sem heitir Silfurplötur Iðunnar. Þar í rauninni kviknaði áhugi minn á þessum gömlu íslensku kvæðum,“ segir Þórður og segir að síðan hafi öll sín verk verið töluvert lituð af þessum arfi. „Ég sæki heilmikið í þetta, maður fær svona tengingu – að vera klassískt tónskáld á Íslandi er í raun pínulítið fáránlegt, hér er engin hefð en þarna er maður kominn með tengingu við land og þjóð.“

Tónleikarnir verða að sönnu fjölbreyttir því rúsínan í pylsuenda kvöldsins er flutningur breska bass-barítónsöngvarans Sir Donald McIntyre á „Kveðju Óðins“, aríu úr Valkyrjunum eftir Richard Wagner. Sir Donald McIntyre verður að teljast einn helsti bass-barítónsöngvari sinnar kynslóðar. Rumon Gamba stjórnar en tónleikarnir hefjast sem fyrr kl. 19.30

Klukkustund fyrir tónleikana verður aðalfundur Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands haldinn á Hótel Sögu. Strax að fundinum loknum mun Karólína Eiríksdóttir tónskáld kynna efnisskrá kvöldsins fyrir gestum. Allir eru velkomnir á fundinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×