Tónlist

Allt æðislegt hjá Magna í Óðinsvéum

Magni spilar á gítarinn í hljóðverinu sem er staðsett í sveitabýli rétt fyrir utan Óðinsvé.
Magni spilar á gítarinn í hljóðverinu sem er staðsett í sveitabýli rétt fyrir utan Óðinsvé.

Upptökur á fyrstu sólóplötu rokkarans Magna Ásgeirssonar, sem standa yfir í Danmörku, ganga prýðilega. Hljóðverið er í sveitabýlí rétt fyrir utan Óðinsvé þar sem Magni og félagar hans Baddi og Gunni úr Sóldögg hafa dvalið í góðu yfirlæti.

„Við erum að verða búnir að taka upp alla trommugrunna og fullt af gíturum,“ segir Magni. „Þetta er æðislegasta stúdíó sem ég hef komið í. Hérna er allt æðislegt. Við erum lengst úti í sveit og akrar allt í kringum okkur. Við viljum helst ekki fara héðan í burtu. Ég hef hugsað mér að taka upp allar mínar plötur hérna í framtíðinni.“

Magni býst við því að taka upp megnið af plötunni í Danmörku en eitthvað verður þó gert heima á Íslandi. „Þetta er að koma mjög vel út,“ segir hann. Lögin á plötunni verða öll á ensku og stefnir Magni af því að gefa hana út hér heima í lok júlí og á svipuðum tíma á Itunes. Síðar meir vonast hann til að koma henni á markað erlendis og verða þá enskar útgáfur af lögum Á móti sól í stað þeirra erlendu tökulaga sem verða á íslensku útgáfunni.

Eins og áður segir kann Magni ákaflega vel við sig í Danaveldi. „Hérna bragðast Tuborginn mikið betur en heima. Maður fær sér alltaf einn og einn öl. Það er bara ætlast til þess að þú drekkir bjór í Danmörku og borðir smörrebröd.“ Bætir hann því við að samstarfið við Badda og Gunna gangi eins og í sögu. „Það er rosalega gott að vera bara þrír. Þeir eru mjög reyndir upptökumenn og ef einn nennir ekki að taka upp þá kemur hinn bara í staðinn. Við erum allir bestu vinir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×