Menning

Jónsi og Alex sýna í Arkansas

Jónsi og Alex halda til Arkansas í lok mánaðar og Melbourne í október með sýninguna Riceboy Sleeps.
Jónsi og Alex halda til Arkansas í lok mánaðar og Melbourne í október með sýninguna Riceboy Sleeps. MYND/GVA

Riceboy Sleeps, sameiginlegt verkefni Jóns Þórs Birgissonar, sem flestir þekkja sem Jónsa í Sigur rós, og Alex Somers, kærasta hans, heldur utan á næstunni. Jónsi og Alex halda sýningu í Arkansas um næstu mánaðamót og í Melbourne í Ástralíu í október.

Jónsi og Alex gáfu út myndabók með sama nafni í nóvember síðastliðnum og settu á sama tíma upp sýningu með myndum úr bókinni og vídeóverkum hér á landi.

„Þetta er reyndar ekki sama sýning og við vorum með hérna heima, við erum búnir að vinna heilmikið í þessu,“ sagði Jónsi. Sýningarnar munu þó eiga eitthvað sameiginlegt. „Þegar við sýndum hérna heima vorum við búnir að finna gamla, ónýta gluggaramma sem við sýndum myndverkin í. Galleríeigandinn í Arkansas er búinn að finna fyrir okkur svipaða glugga úti, svo við gerum verkin hérna heima og setjum þau svo upp í gluggunum,“ útskýrði Jónsi. Þeir verða líka með vídeóverk og einhverja tónlist, að sögn Jónsa.

Myndabókin Riceboy Sleeps verður jafnframt með í för, en fyrsta upplagið er nú uppselt og annað upplag í prentun. „Fyrstu þúsund eintökin voru númeruð, og þau eru búin. Nú verður þetta gert í stærra og ónúmeruðu upplagi, þannig að þetta verður miklu ódýrara líka,“ sagði Jónsi. „Við tökum einhver eintök með út, en við erum líka að vinna í því að fá einhvern dreifingarsamning, úti um allan heim. Það hefst vonandi einhvern tíma,“ sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×