Golf

Tiger með þriggja högga forystu

Tiger Woods hefur þriggja högga forystu fyrir lokahringinn á PGA meistaramótinu í golfi. Aðeins fimm kylfingar eru undir pari vallarins.

Enn einn dagurinn í steikjandi hita rann upp í Tulsa í gær þar sem kylfingar léku þriðja hringinn á hinum erfiða Southern Hills velli. Tiger var í tveggja högga forystu fyrir gærdaginn og það átti lítið eftir að breytast. Tiger sem jafnaði vallarmetið í fyrrdag þegar hann lék annan hringinn á 7 höggum undir pari, paraði fimmtán af holunum átján í gær og fór hringinn á einu höggi undir pari. Hann hafði leikið 24 holur án þess að fá skolla þar til á fjórtándu holunni í gær. En litlu munaði þó að hann næði að bjarga pari þar. Þegar upp var staðið jókst forysta Tigers á toppnum í þrjú högg en hann er samtals á sjö höggum undir pari.

Næstur á eftir honum kemur Kanadamaðurinn Stephen Ames á fjórum höggum undir pari. Bandaríkjamaðurinn Scott Verplank sem var í öðru sæti fyrir hringinn í gær náði sér ekki á strik og fór hringinn á fjórum höggum yfir pari og féll við það niður í sjötta sæti á parinu samtals.

Aðeins fimm kylfingar eru undir parinu fyrir lokahringinn. Á eftir Tiger og Ames koma Bandaríkjamaðurinn Woody Austin, Ástralinn John Senden og Suður Afríkumaðurinn Ernie Els sem allir léku hringinn í gær á einu höggi undir pari.

Bein útsending verður á Sýn frá lokahringnum í dag og hefst hún klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×