Birgir Leifur lauk keppni á Alfred Dunhill-mótinu í Suður-Afríku í 84.-93. sæti og var þremur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.
66 kylfingar tryggðu sér áframhaldandi þátttökurétt á mótinu en Birgir Leifur var samtals á fimm höggum yfir pari. Hann lék á 70 höggum í dag, tveimur undir pari, en 79 höggum í gær sem varð honum að falli.
Mótið er liður í Evrópumótaröðinni í golfi.
Heimamaðurinn Omar Sandys er í efsta sæti fyrir þriðja hringinn sem verður leikinn á morgun. Hann hefur leikið báða hringina til þessa á 68 höggum og er á átta höggum undir pari.
Landi hans, Ernie Els, er í 3.-8. sæti á fimm höggum undir pari en Norður-Írinn Darren Clarke í 15.-17. sæti á tveimur höggum undir pari.