Menning

Leitar að hæfileikaríkum krökkum

Þeir krakkar sem senda inn áhugavert efni fyrir 30. júlí næstkomandi gætu átt kost á að koma fram í Stundinni okkar.
Þeir krakkar sem senda inn áhugavert efni fyrir 30. júlí næstkomandi gætu átt kost á að koma fram í Stundinni okkar.

„Mér varð hugsað til þess þegar ég fékk að koma fram í Stundinni okkar á sínum tíma og hvað mér fannst það mikil upplifun. Nú langar okkur að gefa krökkum um allt land sama tækifæri,“ segir Björgvin Franz Gíslason, umsjónarmaður Stundarinnar okkar, sem leitar eftir efni frá hæfileikaríkum krökkum sem gætu svo komið fram í þættinum.

„Ég man að ég fékk bæði að koma fram sem galdranorn, gera töfrabrögð og sýna brúður sem ég fékk æði fyrir að búa til þegar ég var um ellefu ára gamall. Nú óskum við eftir að krakkar á öllum aldri sendi okkur upptöku, ljósmynd eða sýnishorn af því sem þau eru að fást við og svo munum við hafa samband við þá sem fá að koma fram í Stundinni okkar,“ útskýrir Björgvin og segist vera sannfærður um að mikið af hæfileikaríkum krökkum leynist um allt land.

„Við viljum ekki bara fá söngvara heldur alla sem eru að fást við eitthvað áhugavert, hvort sem það er dans, teiknimyndasögur, töfrabrögð, leir, legó eða annað,“ segir Björgvin, en áhugasömum er bent á að senda efni sitt á stundinokkar@ruv.is eða í Efstaleiti 1, 103 Reykjavík, merkt Stundin okkar fyrir 30. júlí næstkomandi.- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×