Söngvarinn Robert Plant hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að hann ætli ekki í tónleikaferð með Led Zeppelin. Orðrómur var uppi um að sveitin ætlaði á túr á næsta ári með Plant innanborðs en ekkert verður af því.
„Það er bæði pirrandi og fáránlegt að þessar sögusagnir séu endalaust í gangi á sama tíma og allir tónlistarmennirnir sem þær fjalla um ætla að halda áfram með sín eigin verkefni og líta fram á veginn," sagði Plant. „Ég óska Jimmy Page, John Paul Jones og Jason Bonham alls hins besta með þeirra framtíðarverkefni."
Plant er um þessar mundir á tónleikaferð með söngkonunni Alison Krauss. Eftir að henni lýkur ætlar hann að taka sér frí frá tónleikahaldi að minnsta kosti næstu tvö árin.