Rokkararnir í Oasis spiluðu með fimmtíu manna kór sér við hlið á tónlistarhátíð BBC, Electric Proms, í London fyrir skömmu. Kórinn söng með í sex lögum, þar á meðal Wonderwall og Champagne Supernova, og þótti þetta óvenjulega uppátæki takast mjög vel.
Á meðal þeirra sem voru í salnum var Daniel Craig sem leikur James Bond. Notaði gítarleikarinn Noel Gallagher tækifærið og lýsti yfir áhuga á að semja lag fyrir næstu Bond-mynd. Gerði hann í leiðinni lítið úr dúett Jack White og Aliciu Keyes í nýju myndinni, Quantum of Solace.
„James Bond er á efri hæðinni. Kannski get ég platað hann til að redda mér næsta James Bond-lagi í staðinn fyrir að láta einhverja bandaríska hálfvita fá verkefnið," sagði hann.
Stutt er síðan seldist upp á tónleikaferð Oasis um Bretland og Írland næsta sumar. Alls seldist hálf milljón miða á aðeins fimm klukkustundum.