Plata rapparans Lil" Wayne, Tha Carter III, hefur verið kjörin plata ársins af bandaríska tónlistartímaritinu Blender. Listar yfir plötur ársins fara smám saman að birtast og ríður Blender á vaðið með þessum nýja lista.
Í öðru sæti lenti Girl Talk með plötuna Feed the Animals og í því þriðja varð TV on the Radio með Dear Science. Rokkararnir í Metallica voru síðan næstir á blaði með Death Magnetic og í fimmta sæti varð Hot Chip með stuðplötuna Made in the Dark. Á meðal annarra á topp tíu voru Of Montreal, Vampire Weekend og Fall Out Boy.