„Fyrir um ári hefði verið slegist um þessi verk. Þá hefðu verið hér tíu til fimmtán Íslendingar, og annað eins í símanum, að bítast um þau. Ég sá hér engan Íslending,“ segir Pétur Þór Gunnarsson listaverkasali.
Pétur Þór var staddur á uppboði í Kaupmannahöfn og sleginn yfir dræmum viðtökum en í gær voru boðin upp, hjá danska uppboðshaldaranum Bruun Rasmussen, fjögur mjög frambærileg verk eftir fjóra af fremstu listamönnum íslenskrar listasögu: Júlíönnu Sveinsdóttur, Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson og Þorvald Skúlason. Aðeins verkið eftir Þorvald seldist og töluvert undir mati. Það fór á 42 þúsund danskar en var metið á 50. (Samkvæmt gengi gærdagsins eru það 770 þúsund ÍSK.)

„Einhver bauð 24 þúsund í Ásgrím og 18 þúsund voru boðnar í verk Júlíönnu sem metið var á 40. Þetta náttúrlega endurspeglar þetta hrun. Eitthvað gengisfall er á íslensku listinni líka.“
Pétur segir enga leið að sjá sambærileg kreppumerki á listaverkum annarra en þeirra íslensku. „Cobra myndir voru slegnar hér í gær [á mánudag] og þar voru myndir að fara á milljónir.“
Athyglisvert er að fyrir rúmu ári var verk eftir Kjarval, Hvítasunnudagur, sleginn á 25 milljónir með öllu. Það verk er í eigu Landsbankans í dag.- jbg