Tónlist

Loksins nýtt frá Emilíönu

Ný plata eftir langa bið Emilíana Torrini syngur um einhvern Armini.
Ný plata eftir langa bið Emilíana Torrini syngur um einhvern Armini.

Tónlistarkonan Emilíana Torrini stimplaði sig endanlega inn með plötunni Fisherman’s Woman, sem kom út í ársbyrjun 2005. Nú er loksins búið að tilkynna að næsta plata sé á leiðinni, hún mun heita Me and Armini og kemur út 8. september.

Enn á ný vinnur Emilíana með hljóðvirkjanum Dan Carey. Hann hljóðvann síðustu plötu Emilíönu, auk þess að semja með henni lög, bæði á síðustu plötu sem og lögin „Slow“, sem Kylie Minogue flutti á vinsældalistana, og „Gollum‘s Song“, sem var í einni Lord of the Rings-myndinni. Dan hefur komið víða við, var með puttana á síðustu Hot Chip-plötu og vinnur nú með hljómsveitinni Franz Ferdinand, sem er að gera nýja plötu.

Í fréttatilkynningu frá Rough Trade, útgáfufyrirtæki Emilíönu, segir að nýja platan sé metnaðarfull og fjölbreytt poppplata þar sem rödd Emilíönu sé í forsæti. Nú má heyra titillagið, „Me and Armini“, á Myspace-síðu Emilíönu. Lagið er fyrsta smáskífa plötunnar, létt popp-reggí sem venst vel. Í kjölfar útgáfunnar mun Emilíana leggjast í tónleikaferðir.- glh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×