Menning

Hrip í Hyde Park

Skálinn eftir Gehry í líkani.
Skálinn eftir Gehry í líkani.

Á laugardag verður opnaður nýr sýningarskáli í Hyde Park við Serpentine-vatnið í garðinum. Þar verður haldin árleg fjársöfnunarhátíð fyrir Galleríið sem kennt er við vatnið Serpentine. Í fyrra var það Ólafur Elíasson sem átti skálann en í ár er það Kanadamaðurinn Frank Gehry, einn frægasti arkitekt okkar tíma.

Skálanum er best lýst með orðinu hrófatildur. Hann á ekki að halda vatni segir Gehry. Ef rignir geta gestirnir komið með regnhlífar. Gehry er einn þekktasti arkitekt okkar tíma og hefur verið áberandi nafn í framúrstefnulegum arkitektúr eftir að Guggenheim-safnið reis í Bilbao í Baskalandi. Hann er áttræður og segist ekki ætla að leggja árar í bát, vinnan haldi sér lifandi.

Um þessar mundir eru í byggingu hús eftir hann sem verða kennileiti þeirra borga sem þau prýða: krabbameinsstöð í Leeds, safn í Dubai og ný menningarmiðstöð sem er í undirbúningi í Arles í Suður-Frakklandi á yfirgefnu geymslustæði fyrir lestir. Mette Hoffmann auðkýfingur og listvinur er að koma af fullum krafti inn í ljósmyndahátíðina sem þar hefur verið um margra áratuga skeið og nú á að byggja yfir.

Sjö tíundu af rekstrartekjum Serpentine koma frá söfnuninni sem er nú um helgina. Uggur er í mönnum að eftirtekjan af skálabyggingunni sem er helsta aðdráttarafl fyrir fjárfesta og listvini verði rýrari en hin fyrri sex árin sem ráðist hefur verið í nýstárlega byggingu sem stendur fram á haust.

Þótt Gehry hafi í nær tvo áratugi verið víðkunnur fyrir nýstárlegar byggingar sínar segir hann vinnustofu sína ekki fá mörg verkefni: Enginn hafi boðið honum að hanna safn eftir Bilbao og hljómleikahöll hafi hann ekki teiknað síðan Disney-höllin reis í Los Angeles. Enginn vilji hætta á hið nýstárlega, óvænta og byltingarkennda. Menn vilji fá eitthvað kunnuglegt. Skálinn í Serpentine fellur varla undir þá lýsingu.

- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×