Tónlist

Klarínetta og orgel í hádeginu

Einar Jóhannesson og Douglas A. Brotchie Koma fram á hádegistónleikum á morgun og á laugardag.
Einar Jóhannesson og Douglas A. Brotchie Koma fram á hádegistónleikum á morgun og á laugardag.

Klarínettuleikarinn Einar Jóhannesson, einn af þekktustu einleikurum landsins, kemur fram á hádegistónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík á morgun kl. 12.15 ásamt Douglas A. Brotchie, organista Háteigskirkju.

Tónleikarnir eru liður í hádegistónleikaröð tónlistarhátíðarinnar Alþjóðlegs orgel­sumars. Þá koma þeir Einar og Douglas einnig fram á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á laugar­dag kl. 12.

Í Dómkirkjunni leika þeir félagar fyrst fjórar Kirkjusónötur eftir Mozart sem eru útsettar fyrir klarínett og orgel af Yonu Ettlinger. Síðan leika þeir Exul­tavit Maria sem Jónas Tómasson skrifaði fyrir þá og að lokum leikur Douglas tvo kafla úr orgelverkinu Dýrð Krists sem einnig er eftir Jónas.

Á tónleikunum í Hallgrímskirkju leika Einar og Douglas fyrst Concertino eftir ítalska barroktónskáldið Giuseppe Tartini í útsetningu Gordons Jacobs. Þá leika þeir Music when soft voices die eftir John Speight sem hann skrifaði sérstaklega fyrir þá og tónleikunum á laugardaginn lýkur með Hugleiðingu um ummyndum Krists á fjallinu eftir Hafliða Hallgrímsson sem Douglas leikur á Klais-orgelið.- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×