Hvað svo? Þorsteinn Pálsson skrifar 18. maí 2008 06:00 Forsætisráðherra sendi mjög ákveðin skilaboð á ársfundi Seðlabankans í vor um ráðstafanir á sviði peningamála til þess að mæta lausafjárvanda bankakerfisins. Seðlabankinn kynnti fyrsta skref þeirra viðbragða í lok síðustu viku. Þau hafa haft góð áhrif og eru líkleg til að auka bjartsýni. Í sumum erlendum umsögnum hefur þessum ráðstöfunum verið lýst sem neyðaraðgerðum eða framlengingu í hengingaról. Veruleikinn er sennilega sá að á þessar aðgerðir má líta sem mikilvæga viðspyrnu en ofmat væri að líkja þeim við lausnarorð. Ekkert bendir til að einungis sé verið að lengja í hengingarólinni. Vissulega er það svo að nauðir hafa rekið stjórnvöld til aðgerða af þessu tagi. Viðbrögð markaðarins benda hins vegar til að á þeim vettvangi sé trú á að Ísland geti unnið sig út úr örðugleikunum. Annað verður því ekki sagt en að forsætisráðherra hafi tekið á viðfangsefninu af mikilli yfirvegun og styrk. En stóra spurningin er þessi: Hvað svo? Ýmsir hafa lýst efasemdum um réttmæti þess að gera rástafanir til þess að Seðlabankinn geti í reynd verið trúverðugur lánveitandi til þrautavara fyrir viðskiptabanka sem hafa vaxið honum yfir höfuð. Af því hlýst alltaf nokkur kostnaður fyrir skattborgarana. Það er satt og rétt en er ekki gild mótbára eins og sakir standa. Svo lengi sem Ísland kýs að reka sjálfstæða peningastefnu með ósamkeppnishæfan gjaldmiðil verða skattgreiðendurnir að bera þennan kostnað. Þá má spyrja á móti: Er ávinningurinn af því að viðhalda sjálfstæðri mynt slíkur að það réttlæti þessar sérstöku fórnir skattborgaranna til frambúðar? Helsta röksemdin sem færð hefur verið fram í því efni er sú að sjálfstæð peningastefna sé nauðsynleg til að jafna ólíkar sveiflur í þjóðarbúskap Íslands og viðskiptalandanna. Veruleikinn er hins vegar sá að hún hefur í reynd fremur ýkt þennan sveiflumun en hitt. Það mun ekki breytast við þessar aðgerðir. Niðurstaðan er þá þessi. Fórnarkostnaður skattborgaranna er óhjákvæmilegur um tíma en ekki réttlætanlegur til frambúðar. Fyrir þá sök þarf að fylgja tímabundnum ráðstöfunum langtíma stefnumörkun um íslensk peningamál. Kostirnir eru tveir: Krónan með þeim aukakostnaði sem henni fylgir og lélegri samkeppnisstöðu eða evra með þeim hagstjórnaraga sem hún kallar á. Eru menn reiðubúnir til að beygja sig undir aukinn aga til að ná betri stöðugleika í þjóðarbúskapinn og traustari samkeppnisstöðu? Næsti prófsteinn í því efni eru fjárlög komandi árs og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Ljóst er að bæði ríkissjóður og sveitarsjóðir munu tapa tekjum fyrir áhrif af falli krónunnar. Tekjuöflun ríkissjóðs hefur verið að hluta til fölsk vegna viðskiptahallans. Framhald þeirra aðgerða sem nú hafa verið ákveðnar á peningamarkaðnum hlýtur því að felast í mjög aðhaldssömum ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Þetta á alveg sérstaklega við hafi menn í huga að gera Ísland í stakk búið til að taka upp evru. Það getur ekki gerst nema sæmilegu jafnvægi verði náð fyrst. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þeir stjórnmálamenn sem eru hlynntir evru gangi fram fyrir skjöldu með meiri aðhaldssemi í ríkisfjármálum en aðrir. Við fjárlagagerðina reynir á hversu fúsir menn eru að beygja sig undir aukinn aga og sýna í verki að við getum tekið þær ákvarðanir sem óhjákvæmilegar eru vilji menn stefna að betra jafnvægi til frambúðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Með styrka hönd á stýri í eigin lífi Árni Sigurðsson Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Halldór 11.01.2025 Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun
Forsætisráðherra sendi mjög ákveðin skilaboð á ársfundi Seðlabankans í vor um ráðstafanir á sviði peningamála til þess að mæta lausafjárvanda bankakerfisins. Seðlabankinn kynnti fyrsta skref þeirra viðbragða í lok síðustu viku. Þau hafa haft góð áhrif og eru líkleg til að auka bjartsýni. Í sumum erlendum umsögnum hefur þessum ráðstöfunum verið lýst sem neyðaraðgerðum eða framlengingu í hengingaról. Veruleikinn er sennilega sá að á þessar aðgerðir má líta sem mikilvæga viðspyrnu en ofmat væri að líkja þeim við lausnarorð. Ekkert bendir til að einungis sé verið að lengja í hengingarólinni. Vissulega er það svo að nauðir hafa rekið stjórnvöld til aðgerða af þessu tagi. Viðbrögð markaðarins benda hins vegar til að á þeim vettvangi sé trú á að Ísland geti unnið sig út úr örðugleikunum. Annað verður því ekki sagt en að forsætisráðherra hafi tekið á viðfangsefninu af mikilli yfirvegun og styrk. En stóra spurningin er þessi: Hvað svo? Ýmsir hafa lýst efasemdum um réttmæti þess að gera rástafanir til þess að Seðlabankinn geti í reynd verið trúverðugur lánveitandi til þrautavara fyrir viðskiptabanka sem hafa vaxið honum yfir höfuð. Af því hlýst alltaf nokkur kostnaður fyrir skattborgarana. Það er satt og rétt en er ekki gild mótbára eins og sakir standa. Svo lengi sem Ísland kýs að reka sjálfstæða peningastefnu með ósamkeppnishæfan gjaldmiðil verða skattgreiðendurnir að bera þennan kostnað. Þá má spyrja á móti: Er ávinningurinn af því að viðhalda sjálfstæðri mynt slíkur að það réttlæti þessar sérstöku fórnir skattborgaranna til frambúðar? Helsta röksemdin sem færð hefur verið fram í því efni er sú að sjálfstæð peningastefna sé nauðsynleg til að jafna ólíkar sveiflur í þjóðarbúskap Íslands og viðskiptalandanna. Veruleikinn er hins vegar sá að hún hefur í reynd fremur ýkt þennan sveiflumun en hitt. Það mun ekki breytast við þessar aðgerðir. Niðurstaðan er þá þessi. Fórnarkostnaður skattborgaranna er óhjákvæmilegur um tíma en ekki réttlætanlegur til frambúðar. Fyrir þá sök þarf að fylgja tímabundnum ráðstöfunum langtíma stefnumörkun um íslensk peningamál. Kostirnir eru tveir: Krónan með þeim aukakostnaði sem henni fylgir og lélegri samkeppnisstöðu eða evra með þeim hagstjórnaraga sem hún kallar á. Eru menn reiðubúnir til að beygja sig undir aukinn aga til að ná betri stöðugleika í þjóðarbúskapinn og traustari samkeppnisstöðu? Næsti prófsteinn í því efni eru fjárlög komandi árs og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Ljóst er að bæði ríkissjóður og sveitarsjóðir munu tapa tekjum fyrir áhrif af falli krónunnar. Tekjuöflun ríkissjóðs hefur verið að hluta til fölsk vegna viðskiptahallans. Framhald þeirra aðgerða sem nú hafa verið ákveðnar á peningamarkaðnum hlýtur því að felast í mjög aðhaldssömum ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Þetta á alveg sérstaklega við hafi menn í huga að gera Ísland í stakk búið til að taka upp evru. Það getur ekki gerst nema sæmilegu jafnvægi verði náð fyrst. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þeir stjórnmálamenn sem eru hlynntir evru gangi fram fyrir skjöldu með meiri aðhaldssemi í ríkisfjármálum en aðrir. Við fjárlagagerðina reynir á hversu fúsir menn eru að beygja sig undir aukinn aga og sýna í verki að við getum tekið þær ákvarðanir sem óhjákvæmilegar eru vilji menn stefna að betra jafnvægi til frambúðar.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun