„Við erum rosalega músíkalskt par. Sannkallaðir djassgeggjarar, " svarar Áslaug Helga söngkona kímin þegar Vísir spyr hana hvernig er að vinna svona náið með eiginmanninum, saxafónleikaranum Matta Sax.
Hjónin halda tónleika í kvöld á Cafe Cultura á Hverfisgötu ásamt Tríó Matta Sax þar sem þau flytja hressa funk latin-djazztónlist eins og hún gerist best.

„Það er náttúrulega frábært að vinna saman í tónlist. Við kynntumst meira að segja í gegnum tónlistina. Það var á gamla góða Gauknum. Ég var í bandi og Matti líka. Svo lágu leiðir okkar saman. Við byrjuðum reyndar að vinna saman í tónlistinni áður en við byrjuðum saman og samstarfið gengur ljómandi vel hjá okkur," segir Áslaug að lokum en saman eiga hjónin þrjú börn.