Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði eftir leikinn gegn Val í kvöld að sínir menn hefðu spilað leikinn upp í hendurnar á Valsmönnum í seinni hálfleik.
FH komst yfir í leiknum en Valur jafnaði metin í fyrri hálfleik og skoraði svo sigurmarkið í þeim síðari.
„Þetta var ágætis leikur og vorum við nokkuð sprækir í fyrri hálfleik. Við fengum nokkur góð færi en svo í síðari hálfleik vorum við óskynsamir, sérstaklega eftir að þeir skoruðu aftur," sagði Heimir.
„Við vorum of mikið í löngu sendingunum og spiluðum leikinn upp í hendurnar á þeim. Maður er auðvitað aldrei sáttur við að tapa en það er þó margt jákvætt við leik liðsins."
„Nú byrjar mótið og mætum við HK á útivelli í fyrstu umferð og er ljóst að það verður mjög erfiður leikur."
