Tíu lærdómar Þorvaldur Gylfason skrifar 5. mars 2009 06:00 Fjármálakreppan úti í heimi heldur áfram að dýpka og ógnar framleiðslu og atvinnu mikils fjölda fólks. Þetta átti ekki og á ekki að geta gerzt, því að ríkisvaldið býr yfir stjórntækjum, sem eiga að duga til að vinna bug á djúpri kreppu eða kæfa hana í fæðingu. Ósætti í röðum stjórnmálamanna í Bandaríkjunum og Evrópu hefur tafið og truflað mótvægisaðgerðir, en Bandaríkjastjórn hefur nú ráðizt gegn kreppunni með róttækum inngripum af hálfu ríkisins, úr því að einkageirinn liggur sem magnvana af völdum kreppunnar. Evrópa, Japan og Kína hljóta að grípa til svipaðra ráðstafana. Þetta er enginn áfellisdómur yfir blönduðum markaðsbúskap. Almannavaldið þarf stundum að hlaupa í skarðið fyrir einkaframtakið og öfugt. Hvað getum við lært af kreppunni? Hvað getum við gert til að draga úr líkum þess, að sagan endurtaki sig? Mig langar að tilgreina tíu lærdóma. 1. Við þurfum lagavernd gegn vafasömum lánveitingum, gegn ránslánum, líkt og sjálfsagt þykir að hafa lög gegn skottulækningum. Vandinn er sá í báðum dæmum, að læknar og bankamenn vita jafnan meira um flóknar aðgerðir og flókna fjármálagerninga en grunlausir sjúklingar og lántakendur og geta misnotað þessa slagsíðu. Lög myndu vernda lítilmagnann. 2. Matsfyrirtækjum á ekki að haldast upp að þiggja greiðslur af bönkum, sem þau taka til mats. Þennan augljósa hagsmunaárekstur þarf að girða fyrir án frekari tafar. 3. Þörf er á skilvirkara opinberu fjármálaeftirliti. Þingið í Washington ákvað 1999 að létta af bandískum fjármálamarkaði hömlum, sem lagðar voru á hann 1933; þetta var liður í uppreisn repúblikana gegn arfleifð Roosevelts forseta. Nú sést, að slökunin var misráðin. 4. Embættismenn og stjórnmálamenn þurfa að kunna að lesa hættumerkin, þegar þau byrja að hrannast upp. Tilfinnanlegt var, að bankastjórn Seðlabanka Íslands reyndist ekki vita, að gjaldeyrisforði seðlabanka má ekki síga niður fyrir erlendar skammtímaskuldir bankanna. Látum vera, að stjórnmálamenn flaski á tæknilegum atriðum eins og þessu, en hátt settum embættismönnum á ekki að leyfast það; þess vegna meðal annars var bankastjórnin rekin. 5. Viðskiptabankar mega ekki vaxa efnahagslífinu og ríkisvaldinu yfir höfuð, því að þá geta hvorki seðlabankinn né ríkissjóður rækt hlutverk sitt sem lánveitendur til þrautavara, þegar bankarnir komast í kröggur. Því þarf að vanda vel til regluverks og eftirlits á fjármálamarkaði og stuðla að heilbrigðum vexti banka með bindiskyldu, skattheimtu og ströngum álagsprófum. 6. Viðskiptabönkum á ekki að líðast að starfrækja í öðrum löndum útibú, sem vaxa innlánstryggingum heima fyrir yfir höfuð. Öðru máli gegnir um dótturfyrirtæki, því að innlán þar eru tryggð í útlöndum. Rekstur Landsbanka Íslands á útibúum erlendis og þær þungu skuldbindingar, sem þessi rekstur lagði skyndilega og óvænt á íslenzka skattgreiðendur, kann að varða við hegningarlög, en 249. grein þeirra hljóðar svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi." 7. Brýnt er að reisa trausta varnarveggi milli bankastarfsemi og stjórnmála. Ríkisbankarekstur á Íslandi frá fyrstu tíð vitnar um þessa þörf. Þess vegna var einkavæðing gömlu ríkisbankanna nauðsynleg. Spillt einkavæðing er ekki áfellisdómur yfir einkavæðingu, heldur yfir spillingu. 8. Nauðsyn ber til að láta þá, sem keyrðu bankana í kaf, sæta ábyrgð að lögum. Að minnsta kosti þarf að leiða sannleikann í ljós. Heiður Íslands er í húfi. Árangursrík endurreisn efnahagslífsins og trausts milli manna innan lands og út á við kallar á undanbragðalaust uppgjör við fortíðina. 9. Rökin fyrir almennu aðhaldi í fjármálum ríkisins þurfa í bili að víkja fyrir brýnni þörf á inngripum ríkisins, úr því að einkaframtakið er lamað. 10. Við skulum ekki hrapa að röngum ályktunum. Þótt bankar þurfi nú ríkishjálp og hafi sumir færzt í ríkiseigu um skeið, eru bankastarfsemi og stjórnmál enn sem fyrr görótt blanda. Reynslan ber vitni. Einkabankar þurfa strangt aðhald og eftirlit vegna kerfislægrar tilhneigingar þeirra til að vaxa of hratt og velta þungum byrðum á saklausa vegfarendur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Halldór 28.12.2024 Halldór Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun VII. Aðförin að Ólafi Jóhannessyni Hafþór S. Ciesielski Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Fjármálakreppan úti í heimi heldur áfram að dýpka og ógnar framleiðslu og atvinnu mikils fjölda fólks. Þetta átti ekki og á ekki að geta gerzt, því að ríkisvaldið býr yfir stjórntækjum, sem eiga að duga til að vinna bug á djúpri kreppu eða kæfa hana í fæðingu. Ósætti í röðum stjórnmálamanna í Bandaríkjunum og Evrópu hefur tafið og truflað mótvægisaðgerðir, en Bandaríkjastjórn hefur nú ráðizt gegn kreppunni með róttækum inngripum af hálfu ríkisins, úr því að einkageirinn liggur sem magnvana af völdum kreppunnar. Evrópa, Japan og Kína hljóta að grípa til svipaðra ráðstafana. Þetta er enginn áfellisdómur yfir blönduðum markaðsbúskap. Almannavaldið þarf stundum að hlaupa í skarðið fyrir einkaframtakið og öfugt. Hvað getum við lært af kreppunni? Hvað getum við gert til að draga úr líkum þess, að sagan endurtaki sig? Mig langar að tilgreina tíu lærdóma. 1. Við þurfum lagavernd gegn vafasömum lánveitingum, gegn ránslánum, líkt og sjálfsagt þykir að hafa lög gegn skottulækningum. Vandinn er sá í báðum dæmum, að læknar og bankamenn vita jafnan meira um flóknar aðgerðir og flókna fjármálagerninga en grunlausir sjúklingar og lántakendur og geta misnotað þessa slagsíðu. Lög myndu vernda lítilmagnann. 2. Matsfyrirtækjum á ekki að haldast upp að þiggja greiðslur af bönkum, sem þau taka til mats. Þennan augljósa hagsmunaárekstur þarf að girða fyrir án frekari tafar. 3. Þörf er á skilvirkara opinberu fjármálaeftirliti. Þingið í Washington ákvað 1999 að létta af bandískum fjármálamarkaði hömlum, sem lagðar voru á hann 1933; þetta var liður í uppreisn repúblikana gegn arfleifð Roosevelts forseta. Nú sést, að slökunin var misráðin. 4. Embættismenn og stjórnmálamenn þurfa að kunna að lesa hættumerkin, þegar þau byrja að hrannast upp. Tilfinnanlegt var, að bankastjórn Seðlabanka Íslands reyndist ekki vita, að gjaldeyrisforði seðlabanka má ekki síga niður fyrir erlendar skammtímaskuldir bankanna. Látum vera, að stjórnmálamenn flaski á tæknilegum atriðum eins og þessu, en hátt settum embættismönnum á ekki að leyfast það; þess vegna meðal annars var bankastjórnin rekin. 5. Viðskiptabankar mega ekki vaxa efnahagslífinu og ríkisvaldinu yfir höfuð, því að þá geta hvorki seðlabankinn né ríkissjóður rækt hlutverk sitt sem lánveitendur til þrautavara, þegar bankarnir komast í kröggur. Því þarf að vanda vel til regluverks og eftirlits á fjármálamarkaði og stuðla að heilbrigðum vexti banka með bindiskyldu, skattheimtu og ströngum álagsprófum. 6. Viðskiptabönkum á ekki að líðast að starfrækja í öðrum löndum útibú, sem vaxa innlánstryggingum heima fyrir yfir höfuð. Öðru máli gegnir um dótturfyrirtæki, því að innlán þar eru tryggð í útlöndum. Rekstur Landsbanka Íslands á útibúum erlendis og þær þungu skuldbindingar, sem þessi rekstur lagði skyndilega og óvænt á íslenzka skattgreiðendur, kann að varða við hegningarlög, en 249. grein þeirra hljóðar svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi." 7. Brýnt er að reisa trausta varnarveggi milli bankastarfsemi og stjórnmála. Ríkisbankarekstur á Íslandi frá fyrstu tíð vitnar um þessa þörf. Þess vegna var einkavæðing gömlu ríkisbankanna nauðsynleg. Spillt einkavæðing er ekki áfellisdómur yfir einkavæðingu, heldur yfir spillingu. 8. Nauðsyn ber til að láta þá, sem keyrðu bankana í kaf, sæta ábyrgð að lögum. Að minnsta kosti þarf að leiða sannleikann í ljós. Heiður Íslands er í húfi. Árangursrík endurreisn efnahagslífsins og trausts milli manna innan lands og út á við kallar á undanbragðalaust uppgjör við fortíðina. 9. Rökin fyrir almennu aðhaldi í fjármálum ríkisins þurfa í bili að víkja fyrir brýnni þörf á inngripum ríkisins, úr því að einkaframtakið er lamað. 10. Við skulum ekki hrapa að röngum ályktunum. Þótt bankar þurfi nú ríkishjálp og hafi sumir færzt í ríkiseigu um skeið, eru bankastarfsemi og stjórnmál enn sem fyrr görótt blanda. Reynslan ber vitni. Einkabankar þurfa strangt aðhald og eftirlit vegna kerfislægrar tilhneigingar þeirra til að vaxa of hratt og velta þungum byrðum á saklausa vegfarendur.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun