Handbolti

Óskar Bjarni: Þeir áttu þetta skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, svekktur eftir leik.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, svekktur eftir leik. Mynd/Anton
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var vitaskuld heldur súr í broti eftir að hans menn töpuðu fyrir Haukum í baráttu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.

Haukar unnu Val í Vodafone-höllinni í kvöld, 33-25, og þar með einvígi liðanna um titilinn, 3-1.

„Ég er auðvitað hundfúll en ég vil óska Haukunum til hamingju. Þeir eiga þetta skilið. Þeir eru með góða vörn og markvörslu, vel skipulagðan sóknarleik og góðan þjálfara. Ég hefði þó viljað fara í oddaleik og var sannfærður um að við myndum vinna í kvöld. En það tókst ekki, því miður."

„Það var auðvitað hundleiðinlegt að horfa á þá fagna á okkar heimavelli. Ég er þó stoltur af mínum strákum enda ekkert lið sem hefði í okkar stöðu getað sett meira í leikinn í seinni hálfleik og gert betur. Við vorum bara ekki að gera hlutina nægilega vel á löngum köflum. Hefðum við farið í oddaleikinn hefði allt getað gerst, ég er sannfærður um það."

Valsmenn fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn í kvöld en nýttu þau ekki. „Við hefðum þurft að jafna og helst komast yfir. En við lékum ekki vel á löngum köflum. Varnarleikurinn var slæmur í upphafi fyrri hálfleiksins og sóknarleikurinn í upphafi síðari. Það virtist sem að þegar vörnin var að virka þá klikkaði sóknin."

Óskar Bjarni er samningsbundinn Val áfram en ætlaði að bíða með allar yfirlýsingar um framhaldið sitt. „Ég er nú búinn að vera með liðið í sex ár en ég ætla að taka mér nokkra daga til að hugsa mín mál."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×