Tiger Woods segir á heimasíðu sinni að hann hafi brugðist fjölskyldu sinni en sögusagnir hafa verið á kreiki um framhjáhald hans.
Enn fremur segir Woods að hann hafi ekki haldið í þau gildi né hagað sér í samræmi við það sem fjölskylda hans á skilið. Hann biður um að fá svigrúm og næði til að takast á við þessi vandamál með fjölskyldu sinni í friði.
Bandaríska slúðurpressan hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um Woods og hafa sumir þeirra beinlínis fullyrt að hann hafi átt í langvarandi ástarsambandi við aðrar konur.
Ein þeirra, Jamiee Grubbs, segir við US-tímaritið að hún hafi átt í ástarsambandi við Woods síðan í apríl árið 2007 og að þau hafi sængað saman í minnst 20 skipti.
Woods hefur verið sagður hafa haldið framhjá eiginkonu sinni, Elin, með tveimur öðrum konum. Þau eignuðust sitt fyrsta barn í júní árið 2007.
Sögusagnir um framhjáhald hans fóru á kreik eftir að hann ók bíl sínum á brunahana og tré skammt frá heimili hans aðfaranótt föstudags.