Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta hefur gert nokkrar breytingar á liði sínu fyrir leikinn um fimmta sætið á Algarve-bikarnum í dag. Meðal þeirra er að færa Margréti Láru Viðarsdóttur aftur á miðjuna.
Íslensku stelpurnar leika við Kína um fimmta sætið á mótinu í Portúgal og hefst leikurinn klukkan 11.30 að íslenskum tíma.
Margrét Lára hefur leikið sem fremsti leikmaður íslenska liðsins í fyrstu þremur leikjunum en Sigurður Ragnar setur hana nú í stöðu sóknartengiliðs eða fremst á miðjuna.
Þetta er staðan sem Sara Björk Gunnarsdóttir spilaði með frábærum árangri áður en hún meiddist á móti Bandaríkjunum. Harpa Þorsteinsdóttir kemur síðan inn sem fremsti maður í stað Margrétar Láru.
Margrét Lára verður í dag tíunda íslenska landsliðskonan sem nær því að leik 50 A-landsleiki en hún lék sinn fyrsta landsleik á móti Ungverjum fyrir tæpum sex árum síðan eða á Laugardalsvellinum 14. júní 2003.
Margrét Lára kom þá inn á sem varamaður á 66.mínútu og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með sinni fyrstu snertingu fjórum mínútum síðar.
Margrét Lára Viðarsdóttir hefur ekki náð að skora í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins í Algarve-bikarnum í ár en hún var markahæsti í mótinu í fyrra með 6 mörk í 4 leikjum og hafði alls skorað tíu mörk á Algarve undanfarin tvö ár.
Margrét Lára er markahæsti leikmaður A-landsliðs kvenna frá upphafi en hún hefur 43 mörk í 49 landsleikjum eða 20 mörkum meira en sú næsta á listanum sem er Ásthildur Helgadóttir.