Handbolti

Það yrði gaman að toppa mulningsvélina

Óskar Bjarni Óskarsson
Óskar Bjarni Óskarsson Mynd/Eyþór
"Þessi leikur leggst mjög vel í mig. Það er forvitnilegt að vera í þessum leik tvö ár í röð. Það er að vissu leyti gaman að fá Gróttu og vikan fram að leik er skemmtileg," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals þegar Vísir náði tali af honum fyrir úrslitaleik Vals og Gróttu í Eimskipsbikarnum á morgun.

Tengsl Vals og Gróttu eru nokkur því með liði Gróttu leika tveir fyrrum Valsmenn, þeir Ægir Hrafn Jónsson og fyrirliðinn Atli Rúnar Steinþórsson fyrirliði. Þá þjálfaði Ágúst Jóhannsson áður kvennalið Vals og var aðstoðarþjálfari karlaliðsins.

"Þeir Ægir og Atli Rúnar spiluðu auðvitað með okkur og það er gaman fyrir þá að mæta Val í úrslitaleik. Svo erum við Gústi (Ágúst Jóhannsson, þjálfari Gróttu) miklir vinir svo þetta verður skemmtilegt," sagði Óskar.

"Grótta er með góða vörn og góða markvörslu og því verðum við að stjórna leiknum og reyna að halda uppi hraðanum. Í undanförnum tveimur leikjum höfum við ekki verið að spila nógu góða vörn að mínu mati og við verðum að laga það fyrir úrslitaleikinn. Við verðum að spila agaðan sóknarleik því þeir koma til með að reyna að draga úr hraðanum," sagði Óskar.

Hann stefnir að því að verða fyrsti þjálfarinn sem nær að gera Valsmenn að bikarmeisturum tvö ár í röð.

"Mulningsvélin og kynslóð Dags (Sigurðssonar) og Geirs (Sveinssonar) náði því ekki og því væri gaman fyrir okkur að ná að vinna tvö ár í röð. Það væri gott fyrir okkur að ná að vinna stóran titil þrjú ár í röð," sagði Óskar Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×