„Ég er virkilega ánægður með að ná stigi hér í fyrstu umferð gegn mjög sterku liði FH. Ég er ánægður með strákana," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari HK, eftir 28-28 jafntefli liðsins gegn FH í kvöld.
„Við vorum svolítið lengi í gang og smá skrekkur í mönnum. Við komum samt til baka og áttum stigið skilið. Það hefði verið helvíti skítt að fá ekkert út úr þessum leik," sagði Gunnar en hans lið sýndi mikinn karakter í leiknum og í tvígang náði liðið tveggja marka forskoti en missti það jafnharðan niður.
„Við fengum á okkur klaufalega brottvísun og fyrir vikið misstum við frumkvæðið. Strákarnir komu samt til baka og það var magnað því við erum nánast að spila á sama mannskapnum allan leikinn. Þeir héldu þetta út og ég er virkilega ánægður með það," sagði Gunnar.
Blaðamanni kom það gríðarlega á óvart að HK-liðið skyldi halda út enda virkuðu allt of margir leikmenn liðsins í lélegu formi og sumir litu hreinlega út fyrir að vera feitir. Var ekki hægt annað en að spyrja þjálfarann út í líkamlegt ástand liðsins.
„Það eru nokkrir leikmenn liðsins sem eiga nokkuð í land. Ég er ekki sammála þér með að Valdimar Þórsson sé feitur en hann er búinn að lyfta mikið. Hann er massaður og þungur í upphafi móts enda búið að mæða mikið á honum í undirbúningnum. Hann æfir tvisvar á dag og er því eðlilega aðeins þungur núna. Sumir mega samt vissulega bæta aðeins í," sagði Gunnar sem getur ekki kvartað yfir bumbum leikmanna á meðan leikmenn halda út í 60 mínútur á móti leikmönnum FH sem virka í miklu betra formi.