Golf

Frábær spilamennska á móti Bob Hope

Pat Perez
Pat Perez NordicPhotos/GettyImages
Ótrúlegir hlutir eru að gerast á Bob Hope mótinu í golfi en þar er nú brotið blað á hverjum degi í sögu PGA mótaröðarinnar.

Mótið stendur yfir í fimm daga og verður fimmti og síðasti hringurinn leikinn í kvöld. Bandaríkjamaðurinn Pat Perez sló met á föstudag þegar hann hafði leikið fyrstu tvo hringina á samtals 20 höggum undir pari en aldrei áður í sögu PGA mótaraðarinnar hefur kylfingur leikið tvo hringi í röð á svo fáum höggum.

Perez var í forystu fyrir fjórða hringinn í gær sem hann lék á fimm höggum undir pari og var því samtals kominn á 30 högg undir parið. Ótrúlegt en satt þá dugði það honum ekki til að halda forystunni því landi hans Steve Stricker fór hringinn á 10 höggum undir pari sem kom honum samtals í 33 högg undir parið.

Á föstudag fór Stricker holurnar átján á 11 höggum undir pari og hefur hann því leikið síðustu 36 holur á samtals 21 höggi undir pari. Þannig bætti hann því sólarhringsgamalt met Perez um eitt högg.

Stricker hefur nú þriggja högga forystu fyrir lokahringinn en bein útsending frá honum hefst klukkan átta í kvöld á Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×