„Það er bara fínt hjá þeim að vera með þetta „Bad Boys" myndband. Ég veit að þeir eru líka að horfa á Rambo þegar þeir hita upp fyrir leiki. Ég veit eiginlega ekki hvað Rambo á sameiginlegt með handbolta," sagði Rúnar Kárason, leikmaður Fram, aðspurður um viðbrögð við því að Haukarnir séu að fara með samlíkingu hans á Haukum og Detroit Pistons alla leið.
„Bad Boys er réttnefni á þetta lið. Þeir eru mjög fastir fyrir en við getum líka verið fastir fyrir. Ég skil ekki alveg að þeir séu svona ánægðir með þetta því Pistons var ekki beint valin vinsælasta stúlkan í NBA.
Ég las bókina hans Shaq eftir fyrsta árið hans í NBA þar sem hann talaði um að Bill Laimbeer væri mesti fauti sem hann hefði hitt um ævina. Ég ætla nú ekki að segja það sama um Kára Kristján en hann er samt harður," sagði Rúnar en Haukamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson pantaði það að vera Bill Laimbeer í viðtali við Vísi er hann heyrði af Bad Boys-samlíkingu Rúnars.
Skyttan unga segir að Fram-strákarnir hafi fengið innblástur frá kvennaliði Fram sem sópaði Haukum út úrslitakeppninni, 2-0.
„Það kveikti vel í okkur. Við erum ósigraðir á Ásvöllum og það verður engin breyting á því í kvöld. Þeir mega lemja okkur eins og þeir vilja en við ætlum að spila okkar bolta og vinna. Það lið vinnur sem skorar fleiri mörk. Ekki liðið sem gefur fleiri högg," sagði Rúnar ákveðinn.