Handbolti

Valur á toppinn eftir nauman sigur á Stjörnunni

Menn tókust hart á í Safamýrinni í kvöld þar sem HK hafði sigur á Fram
Menn tókust hart á í Safamýrinni í kvöld þar sem HK hafði sigur á Fram

Valsmenn komust í kvöld á toppinn í N1 deild karla í handbolta eftir æsilegan sigur á Stjörnunni á Hlíðarenda 25-24 í sveiflukenndum hasarleik.

Valsmenn hafa ekki tapað á heimavelli í vetur en í kvöld stóð það tæpt gegn einu af neðstu liðum deildarinnar. 

Gríðarlegur hasar var í leiknum og fengu tveir menn úr hvoru liði að sjá reisupassann. Þeir Ingvar Árnason og Heimir Örn Árnason hjá Val og Vilhjálmur Halldórsson og Björgvin Hólmgeirsson hjá Stjörnunni.

Sigurður Eggertsson og Arnór Þór Gunnarsson skoruðu 5 mörk hvor fyrir Val í kvöld en Vilhjálmur Halldórsson skoraði 6 mörk fyrir Garðbæinga. 

FH skaust í þriðja sætið með 38-32 sigri á Akureyri og komst með sigrinum upp fyrir Fram, sem tapaði fyrir HK í kvöld.

Bjarni Fritzson var atkvæðamestur hjá FH með 8 mörk og Guðmundur Petersen 6, en hjá Akureyri var Árni Sigtryggsson markahæstur með 10 mörk.

Fram tapaði heima fyrir HK 32-29. Rúnar Kárason skoraði 9 mörk fyrir Fram í leiknum og Valdimar Þórsson 9 sömuleiðis fyrir HK.

Valsmenn hafa 21 stig á toppnum, Haukar eru í öðru sæti með 20 stig, FH hefur 18 í þriðja, Fram hefur 17 stig í fjórða sæti og HK er í því fimmta með 15 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×