Aron Kristjánsson lofaði hinn unga Stefán Rafn Sigurmannsson eftir sigur Hauka á Fram í N1-deild karla í kvöld.
Haukar voru með yfirhöndina í hálfleik en leikurinn snerist Fram í hag um miðjan seinni hálfleik. Á rúmlega tíu mínútna kafla var Stefán Rafn eini Haukamaðurinn sem náði að skora og hélt þar með sínum mönnum inn í leiknum.
„Stefán Rafn átti frábæra innkomu í vinstra horninu. Bæði var baráttuandi hans í vörninni frábær og hann var svo öryggið uppmálað í færunum sínum," sagði Aron sem sagði einnig að Sigurbergur Sveinsson hafi komið sterkur inn undir lokin.
„Beggi var slakur framan af í seinni hálfleik en komst svo vel í gang í lokin. Ég var virkilega ánægður með síðustu tíu mínútur leiksins og að náð að hafa unnið sigur hér í kvöld."
Hann sagði varnarleik sinna manna oft hafa verið betri en í kvöld. „Við vorum í vandræðum í vörninni, hvort sem við vorum að spila 3-2-1, 5-1, 6-0 eða að taka einn eða tvo úr umferð. Við vorum alltaf að leita af lausn til að stoppa þá."
„En sem betur fer vorum við að spila mjög vel í sókninni. Þetta var leikur þar sem sóknarboltinn var í hávegum hafður hjá báðum liðum en mér fannst Framarar mjög fínir í dag."
„Ég vissi líka að þeir myndu mæta dýrvitlausir til leiks hér í kvöld og þessa vegna er ég ánægður með að hafa unnið þennan leik."
Handbolti