Hlynur Morthens var án nokkurs vafa maður leiksins er Valur vann góðan sigur á Akureyri, 23-19, í N1-deild karla í kvöld.
Hlynur fór á kostum í marki Valsmanna í sínum fyrsta deildarleik með félaginu en hann kom frá Gróttu fyrir tímabilið.
Alls varði Hlynur 26 skot í markinu, þar af eitt víti. Hlutfallsmarkvarsla hans var 58 prósent.
„Það var varla hægt að biðja um betri fyrsta leik með nýju liði og fyrir framan nýja áhorfendur. Þetta gekk vonum framar," sagði Hlynur sem þó sagði að Valsvörnin hefði oft leikið mun betur á undirbúningstímabilinu en í kvöld.
„Þetta var eins og svart og hvítt frá okkar bestu leikjum í haust. Ég veit svo sem ekki af hverju. Það hafa verið meiðsli og veikindi hjá nokkrum leikmönnum í vikunni og við höfum því ekki getað stillt upp okkar sterkasta liði á æfingum. En það var samt virkilega flott að vinna sigur á sterku liði Akureyrar þrátt fyrir þetta," sagði Hlynur.
„Eigum við ekki að segja að það hafi verið haustbragur á þessum leik þó mér finnist það lítil afsökun. Við höfum spilað fullt af flottum leikjum á undirbúningstímabilinu þar sem við vorum að spila hörkuhandbolta. Ég veit ekki hvaða ástæður eru fyrir því að menn eru ekki að spila jafn vel núna."
„En það er góðs viti að hafa byrjað með sigri og við mætum næst FH-ingum í öðrum hörkuleik."