Tímabilið búið og þá er venjulega komið að því að Tiger Woods moki til sín verðlaunum. Woods fékk flest stig á PGA-mótaröðinni og var í raun búinn að vinna þann titil þegar FedEx-bikarinn var búinn.
Tiger vann sex mót á PGA-mótaröðinni í ár eða helmingi fleiri en allir hinir. Tiger fékk því eðlilega einnig mest verðlaunafé í ár og fær því Arnold Palmer-verðlaunin í níunda sinn.
Tiger er því kylfingur ársins í PGA-mótaröðinni og þetta er í tíunda sinn sem hann vinnur til þessara verðlauna og örugglega ekki í það síðasta.
Hann fékk einnig Vardon-bikarinn og Byron Nelson-verðlaunin fyrir að vera með lægsta meðalskorið á mótaröðinni en það var 68,05 högg á hring. Þetta var í áttunda sinn sem hann fær Vardon-bikarinn.