Handbolti

Óskar Bjarni: Ég var búinn að segja strákunum að þetta færi í oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. Mynd/Arnþór

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í þriðja úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla sem fram fór á Ásvöllum í dag.

„Þeir voru að spila betur í dag. Við byrjuðum vel og vorum flottir í upphafi leiks en markvarslan var miklu betri hjá þeim í dag og þeir voru grimmari í varnarleiknum," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals eftir leikinn.

Sóknarleikur Vals var oft vandræðalegur og Haukarnir voru í framhaldinu duglegir að refsa Valsliðinu með hraðaupphlaupsmörkum.

„Þeir voru að komast inn sendingar og stela af okkur boltanum. Sóknarleikurinn var þungur hjá okkur og hann gekk ekki upp í dag. Við náðum ekki að hjálpa þeim nægilega af bekknum. Við bjuggumst við þeim í 5:1 vörn en það var ekki mikill tími til að æfa á milli leikja og við náðum ekki að keyra kerfin alveg nægilega vel í dag," sagði Óskar Bjarni.

"Við ætlum að koma hingað aftur. Ég sagði við strákana fyrir einvígið að þetta færi í oddaleik og jafnvel vítakeppni. Eftir að við töpuðum fyrsta leik þá var í farinn að giska á að þetta færi 3-1 því það var svo mikið blóð á tönnunum hjá okkur. Við náðum ekki að fylgja alveg eftir þessum miðvikudegi sem var flottur," sagði Óskar Bjarni sem vill gera lítið úr mun á frammistöðu liðsins hvirt það er að spila á heima- eða útivelli.

"Ég blæs á þessa umræðu um útivallargrýlu. Þetta er bara spurning um það hvernig við spilum. Þeir eru þá bara svona flottir á heimavelli og við eigum þá bara það inni að vinna þá hér," sagði Óskar Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×