„Ég hefði viljað fá bæði stigin,“ sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn í kvöld. Haukar gerðu jafntefli við Akureyri ,23-23, í hörkuspennandi leik á Ásvöllum í kvöld, en leikurinn var hluti af 11.umferð N1-deildar karla í handknattleik.
„Við vorum í raun bara klaufar að klára ekki dæmið í restina. Akureyringar áttu í bullandi vandræðum með vörnina okkar nánast allan leikinn,“sagði Halldór.
„Við vorum búnir að kortleggja sóknarleik þeirra vel og lögðum mikla áherslu á að stoppa Heimi (Örn Árnason). Undir lokin þá skora Akureyringar nokkur mörk eftir hraða miðju sem er alveg óásættanlegt af okkar hálfu“.
„Akureyringar náðu að halda hraðanum töluvert niðrí í leiknum og ég hefði viljað sjá mína menn keyra mun meira í bakið á þeim. Það er samt allt annar bragur á liðinu og hefur verið mikill stígandi í okkar spilamennsku,“ sagði Halldór eftir leikinn í kvöld.