„Ég er nokkuð ánægður með leikinn," sagði landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson um tap Íslands gegn Frökkum á laugardaginn.
„Við höfum oft spilað við Frakka en aldrei verið svona mikið inni í leiknum. Það gekk reyndar illa að spila boltanum í vindinum í fyrri hálfleik en það stórbatnaði í seinni hálfleik. Stelpurnar lögðu sig 100 prósent fram og ég get ekki farið fram á meira en það," sagði þjálfarinn.
„Mér fannst það sem við lögðum upp með ganga nokkuð vel upp. Við pressuðum þær framarlega og reyndum að koma þeim á óvart. Við tókum áhættu með að spila framar en vanalega og við misstum þær á bakvið okkur einu sinni þegar þær skora," sagði Sigurður sem segir að íslenska liðið þurfi fleiri framherja.
„Við vorum í smá basli. Margrét Lára er ekki í sínu besta formi og var að spila sem sóknartengiliður. Dagný er framherji en hennar besta staða er sem sóknartengiliður. Kristín Ýr kom ágætlega inn í leikinn en við þurfum að eignast fleiri góða framherja til að klára færin. Margrét Lára og Hólmfríður hafa skorað meira en helminginn af mörkunum okkar," sagði þjálfarinn.
